23.02.1931
Neðri deild: 7. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í C-deild Alþingistíðinda. (794)

18. mál, samgöngubætur og fyrirhleðslur á vatnasvæði Þverár og Markarfljóts

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég vil leyfa mér að benda hv. þm. á það, að hér er ekki um neina augnabliksákvörðun að ræða. Það eru tvö ár síðan byrjað var á rannsóknum í þessu máli, og mikil vinna hefir verið lögð í undirbúning þess, og sú ákvörðun tekin, að byggja á þeirri vinnu, sem búið er að vinna. Geta því hv. þm. séð, að stj. er full alvara í þessu máli.

Báðum hv. þm. Rang. hlýtur að vera það ljóst, að það væri rangt af stj. að taka ákvörðun um þetta mál í maí, þegar aðeins tveir mánuðir eru til kosninga, þar sem um svo mikið fjárhagsatriði er að ræða. Enda býst ég við því, að hvaða stj., sem sæti að völdum eftir kosningar, myndi líta ópólitískt á þetta mál og telja það eitt hið nauðsynlegasta í samgöngumálunum. — Hitt væri að leika leik frammi fyrir kjósendum, ef stj. leti byrja á svo stórkostlegum framkvæmdum rétt fyrir kosningar.

Stj. hefir látið undirbúa þetta mál og telur það meðal þeirra mála, sem þarfnast bráðrar lausnar. En hitt hefi ég aldrei talið rétt, heldur ásakað fyrirrennara mína fyrir, að gera stórar fjárhagslegar ákvarðanir rétt fyrir kosningar.