09.04.1931
Neðri deild: 42. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í C-deild Alþingistíðinda. (810)

5. mál, verðtollur

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég vildi ekki láta þetta frv. fara út úr þessari hv. d. án þess að ég léti mína kveðju verða því samferða.

Það er vitanlegt, að þessu máli er ætlað að fara í gegnum þingið í þeirri mynd, sem það er, þar sem tveir höfuðflokkar þingsins hafa bundizt samtökum um það. Það hefir þegar verið bent á, að hér er um afturför að ræða, þar sem háir tollar eru lagðir á nauðsynjavörur, sem fólkið verður óhjákvæmilega að kaupa.

Brtt. hv. þm. Borgf. og 2. þm. Skagf. eru spor í verri átt en í frv. er, því að með þeirri breyt. er gengið inn á fullkomna verndartollastefnu, með því að setja í hæstu verðtollsflokka vörur svo sem rjóma og mjólk. Það lítur út fyrir, að fólk í sjávarplássunum geti alls ekki verið án þessara vara. Árið 1928 var flutt inn fyrir 290 þús. kr. af þessari voru, og mér dettur ekki í hug að efast um, að ef nægilegt framboð væri af innlendri mjólk, myndi hún frekar keypt en sú erlenda. Það eru gæði ísl. vörunnar, sem fyrst og fremst verður að reikna með. Ég lít svo á, að það væri hreint og beint að svipta fólk möguleikanum til þess að kaupa t. d. niðursoðna mjólk, nema með hækkuðu verði, ef till. yrðu samþ. (PO: Þetta er mesti misskilningur!). Það er enginn misskilningur, heldur bein afleiðing af þeirri verndartollastefnu, sem í till. felst. Og þó að hv. þm. búist við, að í hans kjördæmi verði framleidd mjólk, þá mun það áreiðanlega ekki fullnægja öllum landsmönnum. Hér er gerð tilraun til þess að hækka verð á vörum, sem menn geta ekki verið án í velflestum sjávarplássum landsins.

Um það, að hækka toll á ísvörðum og niðursoðnum fiski, vil ég geta þess, að þessa þarf ekki með. Innflutningur á þessum vörum er sama sem enginn. Í skýrslum fyrir 1928 stendur, að innfluttar niðursoðnar vörur hafi alls numið 97 þús. kr., en þar eru taldir niðursoðnir ávextir o. fl., svo að hér er ekki um stórvægilegan innflutning að ræða. Sumar niðursuðuvörur eru alveg óhjákvæmilegar neyzluvörur og því ótækt að setja þær upp í hæsta verðflokk.

Ég vil því meðfram af þessu greiða atkv. á móti þessum brtt., því að ég álít þær stefna í öfuga átt og til stórtjóns fyrir alla alþýðu, sem við sjávarsíðuna býr.

Um till. hv. þm. N.-Ísf. er allt öðru máli að gegna. Þær eru spor í algerlega rétta att. Samkv. þeim falla t. d. niður úr B-lið og koma undir C-lið ávextir, grænmeti, egg og glervörur, sem hvert einasta heimili í landinu verður að nota. Að setja þetta í hæsta flokk er glapræði af Alþingi og myndi stórlega íþyngja og auka dýrtíðina í landinu.

Frv. í heild er svo mikil afturför gagnvart öllum, sem þurfa að kaupa þær nauðsynjavörur, sem þar eru taldar, að ég mun að síðustu greiða atkv. á móti því um leið og það fer út úr hv. deild.