23.02.1931
Neðri deild: 7. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í C-deild Alþingistíðinda. (812)

19. mál, nýr vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það hefði verið fróðlegt nú að rekja sögu þess, hvernig reynt hefir verið að leysa samgöngumál Sunnlendinga frá því fyrsta allt fram á þennan dag, en ég mun þó ekki segja þá sögu hér að þessu sinni, en læt mér nægja að vísa til þess, sem nýjast hefir gerzt í þessu mikilvæga máli.

Í bréfi til vegamálastjóra frá atvmrn., dags. 23. nóv. 1928, segir svo m. a.:

„Hér með er yður, hr. vegamálastjóri, falið á hendur að rannsaka og gera áætlun og till. um:

1. Fullkominn bifreiðarveg frá Reykjavík austur yfir Ölfusá með sérstöku tilliti til, að þessi nýi vegur verði fær bifreiðum á vetrum. Ber því að leggja aðaláherzlu á, að vegstæðið sé svo snjólétt sem frekast er fáanlegt, og öll gerð vegarins miðuð við, að flutningar á þessari leið verði sem ódýrastir og öruggastir í snjóum á vetrum.

2. Hvort fært þykir og ráðlegt að umbæta núverandi veg austur, sumpart með raðstofunum til snjóvarnar, en sumpart með því að leggja nýjan vetrarveg á snjóþyngstu köflunum, svo að hann megi telja viðunandi fyrst um sinn til vetrarflutninga með bifreiðum. Sérstaklega ber í því sambandi að rannsaka aðstöðu alla um nýjan vetrarveg um Þrengslin suður í Ölfus og þaðan á núverandi akbraut vestarlega í Ölfusi“.

Ég leit svo á, að eins og þetta mál lá fyrir, þegar núverandi stj. tók við völdum, væri ekki full-rannsakað, hvort ekki mætti leysa samgöngumál Sunnlendinga með fullkomnum bílvegi. Nýir atburðir höfðu gerzt í málinu, þar sem var hin nýja reynsla í bílflutningum hér á landi, og þá einkum á því svæði, sem hér ræðir um, og hlaut af þessu að leiða, að rannsakað yrði til hlítar, hvort bílvegir mundu ekki framtíðarvænlegust lausn þessa máls. Af þessum ástæðum ákvað ráðuneytið að fela vegamálastjóra áðurnefnda rannsókn. Niðurstaða þessarar rannsóknar vegamálastjóra hefir orðið sú, að vegamálastjóri, sem áður hefir verið járnbrautarmaður, sem kallað er, telur kringumstæðurnar svo breyttar, að fært muni að leggja inn á nýjar brautir, — þær brautir, sem markaðar eru með þessu frv.

Ég hefi áður í sambandi við þetta mál, þegar það hefir borið á góma, og það hefir ekki verið svo sjaldan, tekið það fram, að aðalatriðið væri ekki, hvort leggja ætti járnbraut eða ekki, heldur hitt, hvað væri hentast og ódýrast fyrir þá, sem njóta eiga þessarar samgöngubótar. Mér hefir aldrei vaxið það í augum, þó að leggja þyrfti í mikinn kostnað í byrjun, til þess að koma stærsta landbúnaðarhéraðinu á landinu, sem er svo illa sett að hafa enga höfn, í samband við Rvík. Ég hefi aldrei gengið þess dulinn, að stofnkostnaðurinn við slíka samgöngubót yrði afarmikill. Það sem hvetur mig til að leggja til, að farnar verði þær brautir í þessu máli, sem þetta frv. markar, er því ekki það, að hér sé um svo storkostlega lækkun á stofnkostnaðinum að ræða, heldur hitt, að ég er þess sannfærður, að fyrir bændur austan fjalls verður þessi leið hagkvæmari og ódýrari í hinum árlega rekstri til að koma framleiðslu þeirra á markaðinn.

Ég sé ekki ástæðu til að fara inn á einstök atriði þessa frv. að svo stöddu. Frv. hefir verið eins vandlega undirbúið og frekust tök voru á. Þó að frv. hafi ekki verið lagt fram fyrr en nú, hygg ég, að enginn geti lagt það út til ámælis, hvorki stj. né vegamálastjóra, því að það er vitfirring ein að leggja út í svo mikið stórræði sem þetta, nema að vel rannsökuðu máli. Að öðru leyti vísa ég til grg. frv., sem er allítarleg, og vildi skora á þá n., sem fær þetta mál til meðferðar, að leita óspart til vegamálastjóra um frekari upplýsingar í málinu, því að hann veit gerrst um þessa hluti alla.

Það hefir staðið mikill styrr um það til þessa, hvernig ætti að leysa samgöngumál Sunnlendinga, og mörgum hafa vaxið í augum þær upphæðir, sem nefndar hafa verið í sambandi við það. Ég vildi þó mega óska þess, að ekki yrði mikill styrr um málið nú. Bæði er nú um minni fjárupphæð að ræða í þessu skyni en að úr var reiknað með, ef sú leið, sem í frv. er lögð til, verður farin, og auk þess mega menn ekki einblína svo mjög á kostnaðarhliðina í þessu máli. Hér er um svo stóra hluti að ræða, að ekki er hægt við því að búast, að unnt sé að ráða fram úr þeim, nema með miklum kostnaði.

Að svo mæltu vildi ég leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til samgmn., að lokinni umr.