23.02.1931
Neðri deild: 7. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í C-deild Alþingistíðinda. (815)

19. mál, nýr vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Einar Jónsson:

Ég veit ekki betur en að vegamálastjóri hafi alltaf haldið því fram — og hann mun vera dómbærastur í þessum efnum allra manna hér á landi — að sú bezta og ódýrasta lausn á þessu máli væri járnbraut. Kemur mér þetta frv. því einkennilega fyrir sjónir, því að með því er stefnt til þess að leggja veg í stað járnbrautar. Vildi ég því í þessu sambandi beina þeirri fyrirspurn til hæstv. stj., hvort járnbrautin sé þar með úr sögunni, því að ég býst ekki við því, að farið verði að leggja bæði veg og járnbraut.

Allir viðurkenna, að samgöngurnar við Suðurlandsundirlendið þurfa að batna — og það mikið. Hefir járnbrautin jafnan verið talin vænlegust lausn á því máli. Og vegamálastjóri hefir verið þeirrar skoðunar undanfarið engu síður en aðrir. Nú virðist hann þó vilja leggja til, að vegur sé lagður. Þykir mér þetta harla undarlegt, eins og ég áður sagði. Þá þykir mér það ekki síður undarlegt, að frv. gerir ráð fyrir, að þessi nýi vegur verði lagður, þar sem lægst liggur og snjóalög eru mest. Hefi ég frá barnæsku ætið vanizt því, að hæðir og hryggir stæðu helzt upp úr og að frekar snjóaði í lægðirnar.

Skal ég svo ekki orðlengja þetta frekar, en ég vænti þess, að hæstv. stj. láti frá sér heyra um það, hvort járnbrautin er með þessu látin niður í handraðann.