23.02.1931
Neðri deild: 7. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í C-deild Alþingistíðinda. (818)

19. mál, nýr vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Gunnar Sigurðsson:

Ég ætla ekki að lengja umr. úr hófi fram á þessu stigi málsins, en verð þó að svara hæstv. atvmrh. nokkrum orðum.

Hann hafði rétt eftir mér þau orð, að ég hefði kallað frv. vandræðalegt kák á lausn þessa máls, og stend ég enn fast við, að svo sé. Hér er ekki um neina framtíðarlausn að ræða á samgönguvandræðunum austanfjalls. Hæstv. ráðh. viðurkenndi þetta líka í ræðu sinni, og í frv. og ástæðunum fyrir því kemur þetta einnig fram.

Ég hefi bent á, að tryggingin fyrir daglegum ferðum á milli sveitanna austanfjalls og Rvíkur er fyrir öllu. Það sýnir sig líka, að það, sem aðallega stendur mjólkurbúunum tveimur austanfjalls fyrir þrifum eru samgönguvandræðin: að ekki skuli vera hægt að flytja daglega yfir heiðina. Þetta er stærsta atriðið og þungamiðja málsins. Og það má benda Rvíkingum á, að á meðan ekki er séð fyrir daglegum ferðum yfir heiðina, verður ekki unnt að lækka mjólkurverðið hér í Rvík, sem allir viðurkenna þó, að full nauðsyn væri á.

Ég hafði gaman af að tala við báða forstöðumenn mjólkurbúanna austanfjalls, er ég var þar á ferð núna nýlega. Annar er norskur, en hinn danskur og báðir eldheitir járnbrautarmenn. Þeir byggja framtíð mjólkurbúanna á daglegum og hindrunarlausum flutningum yfir heiðina, og þeir vita, að járnbrautin er eina samgöngutækið, sem byggt verður á í þessu efni.

Vegamálastjóri neitar því hvergi í grg. frv., að járnbraut sé heppilegasta lausn málsins, enda hefir hann, ekki alls fyrir löngu, í „privat“-samtali við mig, lýst yfir því, að hann væri ekki fallinn frá fyrri skoðun sinni um þetta mál. því verður ekki neitað, að það er komin hreppapólitík í þetta mál. Það er að vísu undantekning hjá sumum hv. þm., en hinir eru alltof margir, sem sjá ofsjónum yfir því, þótt allmiklar upphæðir úr ríkissjóði fari í einstök héruð til þess að létta undir lífsbarattu fjölda manna.

Vegamálastjóri hefir í mörg ár unnið að lausn þessa máls og gefið út margar skýrslur, þar sem hann heldur því eindregið fram, að járnbraut sé heppilegasta leiðin til þess að bæta úr samgönguvandræðunum. Annars skal ég vera betur undirbúinn að tala í málinu við næstu umr. En þetta, sem ég hefi sagt, vil ég undirstrika.

Áður en ég sezt niður, vildi ég skjóta einni spurningu til hæstv. atvmrh. Hvernig hugsar hann sér t. d. að flytja nautgripi á bílum vestur yfir Hellisheiði í miklum snjóavetrum? Nú má einmitt gera ráð fyrir, að á áveitusvæðunum austanfjalls fari mjög í vöxt á næstu árum að ala upp nautgripi til slátrunar, og verður þá að vera hægt að koma þeim lifandi á markaðinn hér í Reykjavík. En það verður ekki hægt með bílum, nema þann tíma, sem vegurinn er að mestu leyti auður. Rvíkingar láta ekki lengi bjóða sér rándýrt íshúskjöt, þegar hægt er að fá nóg af nýju og ódýrara kjöti austan úr sveitum.

Það er að vísu rétt, að bílar komast heim á mörg heimili austanfjalls, eða nærri þeim. En verði járnbraut lögð, verður komið upp skiptistöðvum þar sem nauðsynlegt þykir, og frá þeim og að flytja bílarnir vörurnar. Væri þessi leið öll eins og láglendið austanfjalls, mundi ég hiklaust byggja á flutningum bilanna og legði enga áherzlu á járnbraut. En þar sem yfir erfiðan og snjóþungan fjallgarð er að fara, geta bílarnir teppzt svo vikum og mánuðum skiptir og það er og hlýtur að verða þungamiðja málsins.