13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í C-deild Alþingistíðinda. (828)

19. mál, nýr vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Einar Jónsson:

Ég ætla engar getur að leiða að því, hvort hæstv. stj. lifir lengur eða skemur, en fyrir það eitt, hvernig hún hefir borið þetta mál fram, ættu dagar hennar þegar að vera taldir.

Eins og ég hefi áður tekið fram, er þetta stjfrv. ekkert annað en „bluff“— að gera ráð fyrir svo dýrum vegi og þar er ætlazt til. Hvernig á peningalaus stj., sem snúið hefir góðæri í harðæri, að leggja fram fé í svo dýran veg, sem hér er farið fram á? Að því ógleymdu, að þessi dýri vegur — eins og hann er fyrirhugaður — kemur aldrei að því gagni, sem reynt er þó að gylla fyrir mönnum.

Ef bæta á úr samgönguerfiðleikunum austanfjalls, þá er það sennilega járnbraut, og ekkert annað, sem bjargar. Það hefir jafnan verið gert ráð fyrir sérstöku láni til byggingar járnbrautar, ef til kemur. En hér á ríkissjóður að byggja dýran veg fyrir handbært fé — sem allir vita nú, að hvergi er til — og þessi vegur á að liggja yfir leið, sem ég er kunnugur og get fullvissað um, að sjaldan muni koma að gagni. Eftir frv. að dæma er fyrirhugað, að vegur þessi liggi eftir lægðum og fjallaskorðum á Hellisheiði, par sem snjór er venjulega mestur. Það þýðir ekkert að þrátta um það við nauðkunnuga menn, að slíkur vegur getur ekki að fullu haldi komið í snjóþungum vetrum. Og því síður þarf hæstv. atvmrh. að ímynda sér, að þetta frv., sem ekkert er annað en snoturt pappírsgagn, verði til þess að fróa bændur austanfjalls núna fyrir kosningarnar, svo að þeir líti á þetta sem nægar samgöngubætur sér til handa.

Ég tók eftir því í framsöguræðu hv. 2. þm. Árn., að hann þóttist ekki skilja, hvers vegna vegamálastjóri hefði breytt frá þessari skoðun, sem hann hefði jafnan haldið fram um samgöngubætur austan fjalls. Ég skil heldur ekki, að vegamálastjóri skuli nú fremur mæla með vegi en járnbraut, þar sem hann hefir jafnan áður verið ákveðinn járnbrautarmaður og fært rök fyrir, að stofnkostnaður hennar væri minni, en auk þess væri hún mikið ódýrari í rekstri.

Malbikaðir vegir eru líka afardýrir, en þó ófullkomnir. Þarf ekki annað en benda á slíka vegi hér í bænum og hefir þó eflaust verið til þeirra vandað. Þeir eru með holum, sem vatn sezt í og grefur um sig, svo að þeir verða litt færir bilum eftir fá ár, nema alltaf sé verið að laga þá og endurbæta. Hvað mundi þá verða á Hellisheiði með allri þeirri bílaumferð, sem þar hlýtur að verða og oft í latlausum rigningum dag eftir dag, þar sem snjór hefir legið í metraþykkum fönnum.

Ég get ekki komizt hjá því að minna hv. þdm. á, hvað samgöngur austur yfir fjall eru slæmar, þegar tekið er tillit til, hve miklu fé er búið að verja úr ríkissjóði í margskonar stórfyrirtæki þar eystra. Ég hefi ekki hjá mér skýrslur um það, hve miklu það nemur, sem áveiturnar á Skeið og Flóa og mjólkurbúin tvo hafa kostað ríkissjóð, en það skiftir sennilega millj. kr., en öllu þessu fé er svo að segja á glæ kastað og ríkissjóður fær enga vexti af því, nema samgöngurnar við þessar sveitir verði svo bættar, að við megi una. En einkum er það þó vetrarsamgöngurnar yfir Hellisheiði, sem mest ríður á að verði bættar, og þegar verður að hefjast handa um. En mér skildist á hv. frsm., að samkvæmt frv. væri ekki um vetrarveg að ræða, heldur væru það aðallega smáumbætur á sumarveginum, sem frv. fjallaði um. Og einmitt þetta atriði sannfærir mig um, að hér sé hvorki um hálft né heilt að ræða.

En þó að hv. frsm. og aðeins einn annar hv. þm. í n. skrifi undir nál. fyrirvaralaust synir það, að málið liggur ekki ljóst fyrir, og að fleirum en mér virðist sú leið hæpin, sem bent er á í frv. Annars stórfurðar mig á, að hv. frsm. skuli skrifa fyrirvaralaust undir ná1. Hann sem kunnugur maður í Árnessýslu og auk þess vörður hennar ætti þó að sjá hvílíkt kák er hér um að ræða og verða fyrstur til að heimta meiri og fullkomnari samgöngubætur. En kannske hann sé svo blindaður af flokksfylginu, að hann geri sér að góðu það, sem hans stj. biður hann að mæla með? Hann var þó til skamms tíma eindreginn járnbrautarmaður; þess vegna kann ég illa undanhaldi hans og óheilindum í þessu stærsta velferðarmáli okkar, sem austanfjalls búum, í samgöngumálum.

Mér finnst ekki úr vegi að nefna sem dæmi um hina stopulu vetrarflutninga yfir Hellisheiði, að 12. og 13. febrúar í vetur var heiðin algerlega lokuð fyrir vöruflutninga. Þá þurftu bæði mjólkurbúin austanfjalls að koma vorum hingað til bæjarins, til þess að fullnægja samningum þar að lútandi og gera sér verð úr vörunni. En vegna þess að bíða varð þessa tvo daga, skemmdust vörurnar eða eyðilögðust, svo að búin töpuðu þarna miklu fé. T. d. er mér kunnugt um, að tap Ölfusbúsins nam um 6 þús. kr. þessa tvo daga; um Flóabúið veit ég ekki, en eflaust hefir tap þess ekki orðið minna. Þetta sýnir bezt, hve mikið þeir bændur eiga í húfi, sem flytja þurfa daglega vörur sínar yfir Hellisheiði að vetrarlagi, en komast í öngþveiti og strand. (LH: En þá var nýi vegurinn ekki kominn). Nei, en snjóbílarnir tveir, sem hv. þm. V.-Sk. trúði á í fyrra, að væri endanleg lausn á samgönguvandræðunum yfir Hellisheiði, voru báðir í lamasessi. Og svo hefir reynzt dag eftir dag, að þeir hafa lítið getað aðhafzt né bjargað, vegna bilana.

Ef lagður verður nýr vegur á þeirri leið, sem frv. talar um, er auðsætt að fjölga verður snjóbílunum. Ég er ekki á móti því, að frekari tilraunir séu gerðar með þessa snjóbila, en eftir þennan vetur veit ég, flestum öðrum betur, að á slík farartæki, eins og þau eru úr garði gerð, er lítið að treysta, ef nokkuð reynir á. Og eigi snjóbílarnir nokkuð að duga, þegar öll sund lokast fyrir þeim, sem yfir heiðina þurfa að brjótast, þá verða þeir að vera margfalt fleiri, en þó um leið betur gerðir og traustari en þeir, sem ég hefi komizt í kynni við og notaðir munu einnig á Holtavörðuheiði og Fagradal.

Ég get fullvissað um, að eins og í pottinn er búið og málið fram borið nú, verður frv. þetta aldrei til þess að friða bændur austanfjalls, og er því, eins og ég hefi margtekið fram, ekkert annað en „bluff“ hjá peningalausri stjórn, upphugsað sem kosningabeita, en sem ætti að koma sjálfri stjórninni í koll.

Ég veit, að eins og nú horfir, muni til lítils að biðja um fullkomnari samgöngubætur. Ef farið væri fram á að byggja járnbraut, þyrfti að taka lán, en óvist er, hvernig færi um útvegun þess, eftir þau lánstraustsspjöll, sem þessi óheillastj. hefir unnið landi og þjóð með ráðleysi sínu og allskonar bruðlun, enda ber fjármálaferill hennar vitni um þá mestu óstjórn, sem verið hefir í landi hér.

Að síðustu vil ég þó taka fram, að eins og málið horfir við, mun ég ekki treysta mér til að greiða atkv. á móti því, að frv. þetta gangi fram. En eins og ég hefi margtekið fram, tel ég það hegóma að mestu leyti og ónógt í alla staði, enda hefi ég enga trú á, að það bæti úr samgönguþörf manna austanfjalls, nema að litlu leyti. Járnbraut hlýtur að verða sú lausnin, sem framtíðin byggir á. En eins og nú er komið fjárhag ríkis og þjóðar, sé ég mér ekki fært að bera fram frv. um byggingu járnbrautar á þessu þingi.

Að lokum vil ég enn minna á, að sakir þess að ríkið hefir greitt svo mikið fé úr buddu sinni og lagt í stórframkvæmdir í Árnessýslu, er auðsæ hætta á ferðum, verði ekkert gert til þess að tryggja örugga og daglega vetrarflutninga yfir Hellisheiði.

Framlagt fé má búast við að, án samgöngubóta, sé með öllu tapað.