13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í C-deild Alþingistíðinda. (830)

19. mál, nýr vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Gunnar Sigurðsson:

Af því að ég talaði allítarlega um málið við 1. umr., get ég verið stuttorður nú, enda þótt margt mætti um það tala. Ég sagði þá, að frv. þetta væri það aumasta kák, sem ég hefði seð um lausn samgöngumalanna austanfjalls, og hefi ég ekki breytt um skoðun síðan. Minn fyrirvari er því aðeins sá, að ég tel frv. með öllu ófullnægjandi, enda mun það bratt koma í ljós, að hér er ekki um neina framtíðarlausn að ræða. Hins vegar get ég ekki gr. atkv. á móti því, að gerð sé tilraun um að bæta að einhverju leyti úr samgönguvandræðunum. Ég játa, að vegabætur þær, sem frv. gerir ráð fyrir, geti orðið til einhverra bóta í bili — en aðeins í bili — og það er brýn nauðsyn vegna mjólkurbúanna austanfjalls, að eitthvað sé gert til þess að tryggja daglega flutninga yfir Hellisheiði. Þessvegna vona ég, að vegabætur þessar komist sem fyrst á, því að þær þola enga bið.

Það er rétt, sem haldið hefur verið fram, að útlitið er slæmt eins og stendur, en ég er svo bjartsýnn, að ég vona, að Ísland verði allra ríkja fyrst til þess að hefja sig upp úr kreppunni, eins og það varð síðast þeirra að komast í hana.

Ég vil leggja áherzlu á, hvort sem þessi hæstv. stj. á langt líf fyrir höndum eða aðeins fáa daga, að því aðeins koma þessar vegarbætur að notum, að í þær verði raðist nú þegar, þær mega ekki dragast sumarlangt. Bændur austanfjalls þola ekki, að framleiðsluvörur þeirra komist ekki daglega á markaðinn hér í Rvík.

Viðvíkjandi 3. brtt., sem hv. þm. N.-Ísf. mælti á móti, þá held ég, að hættulaust sé að samþ. hana. Á meðan núverandi vegamálastjóri ræður, þarf ekki að óttast, að ráðizt verði í vegalagningu þessa, en hins vegar ekkert á móti því að rannsaka þetta betur.

Það var rétt tekið fram hjá hv. samþm. mínum (EJ), að vegamálastjóri hefir ávallt verið eindreginn járnbrautarmaður, en hitt er ekki rétt, að hann sé fallinn frá þeirri skoðun. Í grg. frv. segir hann, að síðar verði tekin afstaða til þess, hvort byggja eigi járnbraut eða leggja veg. Og hans skoðun er, að samgöngumál þessi verði ekki leyst á annan hátt en með járnbraut. hún sé það , eina, sem bætt geti úr vandræðunum. Ég læt þá máli mínu lokið í þetta sinn og þykist þar með hafa gert grein fyrir mínum fyrirvara.