13.04.1931
Efri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í C-deild Alþingistíðinda. (849)

5. mál, verðtollur

Björn Kristjánsson:

Af því að ég geri ráð fyrir, að sumir einstakir þm. hér í hv. d. hafi ekki getað vel fylgzt með verðtolls- og vörutollslögunum á undanförnum þingum, langar mig til að fara fáeinum orðum um þetta frv.

Frv. þetta er að því leyti til nýmæli, að ætlazt er til, að verðtollur komi að öllu leyti í staðinn fyrir vörutoll. Hingað til hefir verðtollurinn verið lagður á aðeins sem bráðabirgðaráðstöfun. En þótt Alþingi hafi jafnan séð, að verðtollshugmyndin gæti ekki átt við þetta land, þá hefir þó þessi hugmynd fylgt vörutollsstefnunni eins og skuggi, síðan vörutollsstefnan varð ofan á á Alþingi 1912. En það mun aðallega stafa af því, hve mismunandi hv. þm. hafa lagt á sig að reyna að skilja, hversu mikla yfirburði vörutollsstefnan hefir, þegar tekið er tillit til tryggingarinnar fyrir því, að tollurinn komi svikalaust í landssjóð, og hversu laus vörutollsstefnan er við það að hvetja innflytjendur til að koma sér undan tollgreiðslu. En þetta liggur í því, hversu auðvelt er fyrir hina umboðslegu endurskoðendur að sannreyna, hvort tollurinn allur kemur til skila. En tryggingin fyrir skilvísri greiðslu og fullkominni endurskoðun felst í því, að vörutollurinn er tekinn af þunga vörunnar, en ekki eingöngu eftir verðmæti, þó að tekið sé tillit til þess í flokkuninni. Þungi vörunnar er ákveðinn á farmskrá hvers skips, og sömuleiðis vörutegundin í stórum dráttum. Er vigt erlendra vara eins og hún er á farmskrá talin óyggjandi. Stjórnarráðið fær nú frumrit af farmskrá hvers skips, er flytur vörur að landinu, en lögreglustjórar, eða umboðsmenn þeirra á hverjum stað, taka á móti útdrætti úr farmskrá þeirri, sem stjórnarráðið fær, og reikna vörutollinn eftir honum. Þessi farmskrárútdráttur er svo látinn fylgja vörutollsuppgerð lögreglustjóra til stjórnarráðsins. Endurskoðunin er því afareinföld og áreiðanleg. Nú halda sumir menn, sem lítið þekkja til, hvernig innkaup ýmsra vara fara fram, að hætta sé á, að menn flytji vörur flokka á milli, búi um vörur úr verðhærri flokkunum, svo sem vefnaðarvörur, skófatnað o. fl., með verðlægri vörum, t.d. í l. og 2.flokki. En þetta getur illa samrýmzt, því að 3. fl. varan mundi liða of mikið við það. Og tækifærin til þess eru fá, þar sem 1. og 2. flokks vara, járnvörur, vélar, kaðlar og þesskonar, eru venjulega keyptar í allt öðrum stoðum en vefnaðarvörur og skófatnaður. Og svo kemur það höfuðatriði til greina, að stærri vefnaðar- og skófatnaðarverzlanir hér verzla alls ekki með 1. og 2. flokks vörur og geta því ekki blandað þeim saman. Það ætti því að vera auðsætt, að eigi þarf að óttast, að vörutollur tapist að mun vegna flutnings á milli flokka.

Nákvæmir menn, sem hættir til að binda skoðanir sínar við aukaatriði, finna það að vörutollinum og fundu í upphafi, að tollurinn leggst eðlil. ekki alveg jafnt á allar vörur. En í reyndinni kemur þetta lítið að sök, þar sem flest heimili þurfa á mörgum vörutegundum að halda, og það jafnar tollinn. Kaupmönnum og kaupfélögum, sem verzla með allskonar vörur, væri líka innan handar að leggja vörutollinn sem næst jafnt á allar vörur, ef þau vildu og samkeppnin leyfði það. Verzlunin getur fært tollana til og hefir oft gert, eftir því sem henta þótti og samkeppnin gaf tilefni til.

Vörutollslögunum hefir nú verið beitt í 17 ár, og hafa litlar umkvartanir komið fram, enda voru þær helztu komnar fram 1921, er vörutollslögin voru endurskoðuð, eftir að þau höfðu þá gilt frá 1912. þáverandi fjmrh., Magnús Guðmundsson, endurskoðaði vörutollslögin og umbætti allt, sem bóta þurfti. Hann leitaði álits lögreglustjóra um allt land, hvort þeir álitu hollara að aðhyllast verðtoll eða vörutoll. 10 logreglustjórar svöruðu. Sendu 9 þeirra stj. rökstudd álit, sem mæltu eindregið með vörutolli, og einn mælti alveg órökstutt með verðtolli.

Þeir, sem mæltu eindregið með vörutolli, voru þessir:

1. Lögreglustjórinn í Reykjavík, núverandi tollstjóri.

2. Sýslumaður Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu.

3. Lögreglustjóri Siglufjarðar.

4. Sýslumaður Skagafjarðarsýslu.

5. — Mýra- og Borgarfjarðarsýslu.

6. — Húnavatnssýslu.

7. — Árnessýslu.

8. — Eyjafjarðarsýslu.

9. — Barðastrandarsýslu.

Leyfi ég mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp bráðum eitt af þessum álitum, en allir þessir menn mæltu eindregið, hver á sinn hátt, með vörutolli, þó að ýtarlegast sé hjá Páli Bjarnasyni í Stykkishólmi og lögreglustjóra Siglufjarðar.

Svo átti vörutollsfrv. eindregið fylgi 1921, að það var samþ. í Nd. með 18 atkv. gegn einu. Á þinginu 1912 bar Lárus H. Bjarnason og nokkrir aðrir þm. fram verðtollsfrv., og tók hann fram, að það væri aðeins borið fram til bráðabirgða og að tollurinn mætti ekki vera hærri en 3%. Samhliða bar ég fram frv. um þungatoll. Bæði frv. voru sett í 7 manna nefnd. Við 2. umr. um verðtollinn stakk Hannes Hafstein ráðherra upp á því að bæði málið yrðu rædd saman, og var það samþ. Var ég þá, eins og vant var, í fullri andstöðu við Hannes Hafstein og flokk hans. Hannes hélt þá ýtarlega ræðu um málið og sagði m. a. þetta (B.III. 1912, dálki 223), sem ég skal nú lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„En þó að ég fyrir landssjóðsins hönd vilji njóta fylgis og fulltingis aðstandenda frumvarpanna og hvoruga styggja, þá verð ég þó að láta uppi álit mitt um það, hvort frv. heldur beri að aðhyllast, og það jafnvel þótt það frv. gangi á móti því frv., sem að svo stöddu sýnist hafa miklu fjölmennara fylgi hér í deildinni og hefir fylgi sex sjöundu hluta af hv. skattanefnd“. — Og ennfremur segir hann síðar í sömu ræðu (dálki 225, 226 og 227): „En það er fleira, sem taka verður tillit til í framkvæmd laganna. — Fátt er meira siðspillandi en löggjöf, sem ekki er unnt að framfylgja og leiðir menn til undanbragða og svika. Ég sé ekki betur en að verðtollslögin séu þess eðlis, að mjög væri hætt við einhverju slíku. Innheimtan yrði erfið, eftirlitið meira en erfitt, reikningsendurskoðun eftir á nafnið eitt. Það þarf engum blöðum um það að fletta, hve örðugt er að koma í veg fyrir, að innkaupsverð sé rangt upp gefið, — og innkaupsreikningum má ýmislega fyrir koma ....

Endurskoðun á reikningum tollheimtumanna yrði ekkert annað en samlagningarendurskoðun, athugun á því, hvort rétt er goldið af því, sem til er sagt. En endurskoðarinn hefir engin tæki í höndum til þess að rannsaka, jafnvel hvort tollheimtumenn skila því, sem þeir hafa tekið á móti, hvað þá hitt, hvort þeir hafi heimt gjaldið af öllu, sem fluttist. Hingað til hefir endurskoðunin haft opinberar tollskrár og „manifest“ skipanna, sem gefið hafa fullnægjandi grundvöll í þessu efni. Um verðtoll eru engin samskonar skilríki fáanleg. Ekkert nema „faktúrur“ og reikningar, sem mönnum hefir þóknazt að afhenda, eftir því, sem hverjum býður við að horfa.

Með farmgjaldsfyrirkomulaginu yrði þetta allt framkvæmanlegt og tiltölulega auðvelt. Á „manifestunum“ á að mega sjá allt, sem innflutt er, og þyngd þess. á þeim má því byggja innheimtuna og sjá um, að gjald sé greitt af öllu því, sem með skipinu hefir flutzt. Eftir „manifesti“ og öðrum skipaskjölum getur endurskoðunin eftir á sannfært sig um, að öllu sé til skila haldið, þegar ekki þarf að hugsa um annað en þyngd þess, sem innflutt er“.

Þannig mælti Hannes Hafstein í þetta sinn, og er þar flest sagt, sem segja þurfti gegn verðtollinum; er það óhrekjandi og á jafnt við nú og 1912.

Alveg í sama streng tók Guðlaugur Guðmundsson bæjarfógeti, sem var þaulvanur tollheimtumaður. Hann segir (i dálki 217) þetta: „Hvað verðtollinn snertir, sem allir geta svikið, skal ég taka það fram, að jafnvel þótt „principið“ sé í sjálfu sér ekki óheilbrigt, þá er allur umbúnaður þess svo vaxinn, að ekki er hægt að hafa neitt eftirlit með, að réttar skýrslur komi fram. Það er játað, að áreiðanlegt sé, að ekki komi öll kurl til grafar. Þeir, sem heiðarlegir eru, borga, hinir svíkja“.

Höfuðástæðurnar gegn verðtollinum eru því þessar:

1. Að engin trygging er fyrir, að kaupmenn og kaupfélög gefi vörurnar rétt upp til tolls, og allra sízt þau verzlunarfyrirtæki, sem hafa sínar eigin skrifstofur erlendis.

2. Að engin trygging er fyrir því, að lögreglustjórar, skrifarar þeirra, hreppstjórar og aðrir umboðsmenn innheimti verðtollinn allan og hlutdrægnislaust.

3. Að engin trygging er fyrir, að lögreglustjórar skili öllum þeim tolli, er þeir taka á móti, því að öll umboðsleg endurskoðun er útilokuð.

Öll trygging fyrir verðtollsinnheimtunni er sú, að innflytjandi gefur skrá yfir, hvernig vörur á hverjum reikningi deilist eftir flokkum og hver krónuupphæðin sé fyrir hvern flokk, og lánar svo innkaupsreikninginn til samanburðar, sem getur komið frá allt öðru firma erlendis en því, sem hefir selt vöruna, — getur verið lægri en sannvirði og sleppt að greina frá sumum vörunum, umbúðakostnaði o. s. frv.

Loks geta lögreglustjórar og umboðsmenn þeirra ekki rannsakað, hvort innflytjandinn skiptir vörunum rétt í flokka, því að fáir geta lesið reikninga yfir allskonar vörur nema sá, sem hefir keypt vörurnar erlendis. Allar verksmiðjur gefa vörum sínum nöfn eftir geðþótta, og getur engin íslenzk loggjöf bannað þeim það. Lögreglustjóri sendir stjórnarráðinu skrá yfir þann verðtoll, sem hann telur sig hafa innheimt, og verður stjórnarráðið að sætta sig við þá skrá, hversu vitlaus sem hún kann að vera, ef hún aðeins er lögð rétt saman. Farmskráin veitir í þessu tilfelli litla eða enga stoð, þó að hún sé fullnægjandi gagn fyrir vörutollinn. Á hinni nýju fullyrðingu tollstjóra hér á því, að verðtollurinn hafi reynzt álíka vel og vörutollurinn, er ekki rétt að byggja mikið, með því að engin endurskoðun á verðtollinum hefir getað farið fram. Tollstjóranum er því alveg óhætt að byggja á áliti því, er hann gaf sem lögreglustjóri um verðtollinn og vörutollinn 1920. Það er gagnslítið að vitna í lausleg ummæli hans nú. Ég ætla heldur, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp bréf hans til stjórnarráðs Íslands, dagsett 23. sept. 1920, sem hljóðar svo:

„Í bréfi dags. 8. apríl þ. á., hefir hið háa stjórnarráð beðið mig að láta því í té álit mitt um, hvort heppilegra myndi í nýrri löggjöf um skatta til ríkissjóðs af aðfluttum vörum að halda vörutolli með svipuðu fyrirkomulagi og nú er, eða að halda sér að verðtollshugmyndinni með líku fyrirkomulagi og til var ætlazt á Alþingi 1912.

Eftir að ég nú fast að missiri hefi beitt lögum nr. 2, 15. marz 1920, sem eru verðtollslög, og jafnframt framkvæmd þeirra athugað, hverjar bætur mætti á þeim gera til að létta hana, og borið þá reynslu saman við reynsluna, sem fengin er með núgildandi vörutollslögum með hliðsjón af umbótum, er á þeim mætti gera í ljósari og samræmdari flokkun, er ég ekki í neinum vafa um, að heppilegra myndi í nýrri löggjöf að setja skatt til ríkissjóðs af aðfluttum vörum eftir þunga, tölu eða rúmmáli varanna, eftir því sem við á, heldur en eftir verði varanna, hvort svo sem er fob.- eða cif- verð þeirra; því að vörutollsfyrirkomulagið hefir mér reynzt miklu einfaldara og auðveldara og gera skattheimtuna tryggari en verðtollsfyrirkomulagið, en eftir minni skoðun má gera ný skattalog alveg jafnsanngjörn fyrir gjaldendur eða almenning, hvoru fyrirkomulaginu sem skattalögin svo eru byggð á; það atriði veltur á flokkun og nánari ákvæðum laganna sjálfra“.

Það má vitanlega ekki glepja menn, þó að fullt eins mikið fé hafi náðst inn með verðtolli eins og vörutolli; það liggur í því, hversu þar verðtollurinn er á móts við vörutollinn. Til dæmis er verðtollurinn af vefnaði, öðrum en silki, 15%. en af vörutolli aðeins um 21/2 %. En sá flokkur gefur mestu tekjurnar. Er því alls ekki hægt að segja, hversu miklu kann að vera skotið undan tollgreiðslu.

Ef vér athugum sérstaklega innheimtuerfiðleikana á vörutolli úti um land, þá sjáum ver þegar, að vörur flytjast að beint frá útlöndum á 27 hafnir a. m. k., þar sem ekki er neinn lögreglustjóri á öllum þessum stöðum eru það því hreppstjórar eða aðrir umboðsmenn lögreglustjóra, sem eiga að innheimta tollinn. Og til hliðsjónar eiga þeir að hafa innkaupsreikninga, sem geta verið á málum þeirra 8–10 landa, sem Ísland kaupir vörur frá. Hvernig eiga nú þessir blessaðir umboðsmenn að geta innheimt tollinn nálægt réttu lagi? Þeir hljóta að verða alveg í höndunum á innflytjendunum. Og bæði er það fávíslegt og samvizkulaust að gefa slíkum umboðsmönnum vald til að meta verð á útlendum vörum, ef þeir gizka á, að innflytjandinn telji það með of lágu verði. Hvernig í dauðanum eiga hreppstjórar og aðrir umboðsmenn að geta vitað um, hvað sé sannvirði hinna ýmsu erlendu vara á ýmsum tímum? — Það gætu ekki einusinni hinir lærðustu kaupmenn í Reykjavík dæmt um, nema með víðtækri rannsókn, sem tæki langan tíma.

En þetta er eitt af blekkingarákvæðunum í frv. — Þá er það ekki lítið blekkingarákvæði í frv., að heimta netto-vigt á öllum hlutum. Netto-vigtin veitir verðtollsinnheimtunni litla eða hreint enga stoð, nema vöruskoðun fari beint fram, eins og í öðrum löndum.

Svona eru ýms harðneskjuákvæði sett inn í frv., sem gætu átt við, ef lögin ættu að gilda í útlöndum, en ekki hér. Hér verða slík ákvæði bein blekking, notast sem uppfylling í eyður innheimtuskilyrðanna.

Ráðlegast mundi verða að framlengja núv. verðtollslög til næsta þings, endurskoða svo vörutollslögin af mönnum, sem þekkja verðlag á hinum ýmsu vörum og þyngd umbúða þeirra, og bæta svo sem 750 þús. kr. á vörutollinn, en leggja t. d. 11/2% á sem almennan verðtoll, sem mundi nú sem stendur nema um 800 þús. kr. Svo lágan verðtoll mundu fáir vilja vinna til að svíkja. Og þá væru fengnar þær tekjur, sem landið í svipinn þarfnast.

Mig hefir langað til að skýra málið dálítið, áður en það færi til n., þar sem ég á ekki sæti í þeirri n., sem það fer til. Út í einstakar gr. frv. fer ég ekki að þessu sinni, þótt frv. sé einnig víða ábótavant í smærri atriðum, t.d. hvað flokkun vörutegundanna snertir. Hvort sem samin eru verðtolls- eða vörutollslög, þá þarf mikla vinnu og alúð við samningu þeirra. — Þekki ég það vel af eigin reynslu, því að ég lagði mikla vinnu í að semja vörutollslögin á sínum tíma. Þarf mikla natni til að gæta þess, að tollurinn verði ekki of hár á sumum vörum og of léttur á öðrum.

Æskilegast væri, að sú stj., sem situr á næsta þingi, hver sem hún annars verður, komi þá með vel athugað tollafrv. og leggi það fyrir þingið.