13.04.1931
Efri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í C-deild Alþingistíðinda. (851)

5. mál, verðtollur

Jón Baldvinsson:

Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls nú við 1. umr. þessa máls, en ég stend upp vegna þess, að fram hafa komið svo sterk andmæli gegn frv. frá hv. 1. þm. G.-K., að ég býst við, að hann muni jafnvel greiða atkv. á móti frv. nú við 1. umr. (BK: Nei, ég geri það ekki). Ég vildi þá taka það fram, að ég greiddi atkv. móti frv. af annari ástæðu en hann.

Hv. 1. þm. G.-K. setur það aðallega út á frv., að erfiðara sé að innheimta tollinn, ef verðtollsleiðin er farin, heldur en ef vörutollur er hafður. Um það skal ég ekki deila, heldur vil ég víkja ofurlítið að sjálfri stefnunni í frv.

Frv. þetta er ekki eingöngu verðtollsfrv., heldur einnig verndartollafrv. Ýmsar mestu nauðsynjavörur, sem almenningur þarf alltaf að kaupa og nota, eru tollaðar með háum verðtolli. Þetta gerir það að verkum, að ég greiði atkv. móti frv. nú þegar.

Tollarnir eru nú gífurlega háir. Sykurtollurinn nemur t. d. um helming innkaupsverðs eða meira. Í frv. þessu eru ýmsar nauðsynjavörur af sömu tegund og þær, sem framleiddar eru í landinu sjálfu, settar í háa tollflokka. Hlýtur það óhjákvæmilega að verða til þess, að samsvarandi innlendar vörur hækki að sama skapi. Og ýmsar aðrar nauðsynjavörur eru einnig tollaðar mjög hátt. Verður þetta til þess að skapa og viðhalda dýrtíðinni í landinu, hinni miklu dýrtíð, sem hæstv. stj. ekki sízt hefir komið auga á, eftir blöðum hennar að dæma. En með þessu frv. á samt að auka dýrtíðina enn meira.

Tollarnir nema nú nál. 10% af öllum innfluttum vörum til jafnaðar. Og það er fátæka fólkið, sem harðast verður fyrir barðinu á tollunum, eins og venjulega á sér stað um tolla, hvort heldur það eru verðtollar af innfluttum nauðsynjavörum eða tollar til þess að vernda innlendu vöruna.

Ég get því ekki greitt frv. þessu atkv. mitt, eins og ég hefi áður tekið fram. Þó að frv. þetta fari til n., sem ég á sæti i, og ég muni flytja við það brtt., þá býst ég ekki við, að þær muni ná fram að ganga, eftir þeim undirtektum, sem slíkar brtt. fengu í hv. Nd., enda hafa báðir stærri flokkarnir tekið höndum saman um þetta mál, og er frv. árangurinn af samstarfi þeirra í mþn. í skattamálum.

Ég ætla ekki að fara að finna að því, að frv. sé illa undirbúið Hefi ég ekki kynnt mér það nóg til þess að geta dæmt um það. En ég álít, að stefna sú, er í frv. birtist, sé mjög skaðleg. Stefnan er sú, að koma á verndartollum, sem hljóta að hækka verðið á innlendum vörum, og í öðru lagi sú, að leggja háa tolla á ýmsar nauðsynjavörur almennings, sem ekki eru framleiddar í landinu sjálfu. Þess vegna greiði ég atkv. móti frv.