13.04.1931
Efri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í C-deild Alþingistíðinda. (855)

5. mál, verðtollur

Björn Kristjánsson:

Ég ætla ekki að svara hæstv. fjmrh. miklu. Rök hans voru veik, eins og vænta mátti. Trúi ég ekki öðru en að allir óvilhallir menn geti fallizt á það, sem ég sagði um málið.

Hæstv. ráðh. sagði í byrjun ræðu sinnar, að það væri eðlilegt, að ég legði kapp á að halda fram vörutolli, því að ég hefði upphaflega samið vörutollslögin. Það er fjarri mér að haga mér á þann hátt. Ég er orðinn allt of gamall til þess að vera svo virðingagjarn og allt of reyndur til þess.

En sé nauðsyn til þess að breyta tolllögunum, þá verður þingið að hugsa fyrst og fremst um hina siðferðislegu hlið málsins. Það gerði Hannes Hafstein, en það vantaði alveg í ræðu hæstv. fjmrh.

Hæstv. ráðh. fann að því við mig, að ég skyldi segja, að undirbúningur frv. væri slæmur. Ég sagði það, og ég stend við það. Hann sagði ennfremur, að hann hefði snúið sér til ýmsra manna, til þess að afla sér upplýsinga um málið. Hvorki hæstv. fjmrh. eða n. hafa nokkurntíma snúið sér til mín, sem hefi sett mig manna mest inn í málið, og ég efast um, að farið hafi verið til annara, sem betur vissu en n. og stjórnin. 1920 sneri stj. sér þó til Verzlunarráðsins, sem þá mælti einróma og eindregið með vörutollinum.

Þó að fulltrúar beggja flokkanna í mþn. séu báðir góðir menn og gildir, þá brestur þá samt mjög þekkingu á þessu máli. Sem dæmi skal ég taka það, að þeir leggja 30% toll á munnhörpur. Ég er viss um, að ég gæti borið allar þær munnhörpur í einu á bakinu, sem flytjast til landsins árlega, þó að ég sé orðinn gamall og geti varla staðið á fótum. Harmonikur eru tollaðar með 20% og öll önnur hljóðfæri með 5%. Hvaða ástæða er nú til þess að taka munnhörpur út úr? Ætlast n. til, að leitað verði að munnhörpum í hverri sendingu? Þær eru þó engu lítilfjörlegri hljóðfæri heldur en harmonikur. Það má vel halda hljómleika með munnhörpum, ekki síður en harmonikum. En er þetta hljóðfæri vel til þess fallið að vekja áhuga barna og unglinga á músík? Að sjálfsögðu hefðu öll hljóðfæri átt að tollast í sama flokki, í staðinn fyrir í þremur flokkum.

Þá nær ekki nokkurri átt að tolla ávaxtamauk og grænmeti með 20%. Ávextir hverskonar sem eru verða öllum nauðsynlegir, einkanlega þó þeim, sem við sjávarsíðuna búa, og t. d. geta sjúkrahúsin alls ekki verið án þeirra. Ég mundi telja nauðsynlegt að veita styrk til þess að flytja inn ávexti, til þess að auka notkun þeirra, í stað þess að draga úr innflutningi slíkrar nauðsynjavöru með háum verðtolli.

Sama er að segja um lúsakambana; þá á líka að tolla með 20%, og kemur mér það dálítið kynlega fyrir, þegar athugað er, að þingið veitir árlega styrk til þess að útrýma geitum. (Fjmrh.: Er þá lús geitur?). Kambar þessir hafa áður verið tollaðir með vefnaðarvörum, sem hér í frv. á að tolla með 10%. Hver er ástæðan fyrir því, að kambar þessir eiga nú að bera tvöfaldan toll á við vefnaðarvörur? Eru þeir svo miklu meiri óþarfi? Og svona mætti lengi telja. Það er sama hugsunin í gegnum allt frv., að hér sé eins fullkomin tollgæzla og í útlöndum og hver einasta umbúð opnuð og skoðuð.

Annars er það ekki til annars en spauga að því, hvernig þessi flokkun er gerð, svo mjög er hún sett af handahófi. — En ég ætla ekki frekar að fara út í það að sinni og læt mér nægja það, sem ég hefi sagt, enda ætlast ég til, að aths. mínar verði til leiðbeiningar þeirra hv. n., sem fær málið til meðferðar.

Hæstv. fjmrh. hefir ekki leitað til mín eða annara manna, sem hugsað hafa um þetta mál árum saman og reynt að leysa það á viðunandi hátt, heldur spyr hann tollstjórann hér í Reykjavík, sem lagði til, að vörutollurinn yrði felldur niður að mestu leyti, og er hann þó háður eftirliti stjórnarráðsins. Hann treystir þjónum sínum vel um innheimtuna, enda er það miklu þægilegra að þurfa ekki að vera að svara endurskoðendum stjórnarráðsins, eins og nú gerist, meðan vörutollurinn er í gildi. En hvernig getur tollstjóri sagt þetta, þegar þess er gætt, að engin endurskoðun hefir farið fram á verðtollinum.

Svo sagði hæstv. fjmrh., að 1921 hefði lögreglustjóri ekki haft neina reynslu í þessu efni og því hefði verið rennt blint í sjóinn, hvernig fara mundi um innheimtuna. En nú lýsir tollstjóri því yfir, að á 6 mánuðum hafi skapazt sú reynsla, að hann geti auðveldlega dæmt á milli þessara tollstefna. En hér þarf ekki neina reynslu, heldur heilbrigða skynsemi og sæmilega athugun, til þess að sjá, hvað betur hentar í þessu efni.

Hæstv. fjmrh. sagði, að vörutollurinn væri nokkurskonar verðtollur, og er það rétt. En því er þá verið að breyta um frá því, sem nú er, og gera mönnum auðveldara fyrir að hliðra sér hjá að greiða lögmæt gjöld?

Hæstv. ráðh. segist í viðtali við menn nú um land hafa fengið þær upplýsingar, að tollheimtumennirnir vildu heldur hafa verðtollinn. Þetta þykir mér ekkert undarlegt, því að væri ég innheimtumaður, mundi ég fremur vilja hafa verðtollinn vegna þess að hann er ekki háður neinni „revision“. Þar er auðvelt að koma svikum við og vandalaust að sleppa sumum við tollgreiðslu eða veita þeim hlunnindi, sem aldrei þarf að verða uppvíst um.

Ég ætla svo ekki að segja fleira né standa í frekara þjarki um mál þetta.

(Fjmrh.: Ekki byrjaði ég!). En ég hefi reynt að segja álit mitt og bent á helztu gallana, sem eru á tollastefnu þeirri, er frv. ætlast til að verði lögtekin.