19.02.1931
Efri deild: 4. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

13. mál, tilbúinn áburður

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Lög þau, sem sett voru á þinginu 1928 um tilbúinn áburð, heimiluðu ríkisstj. að létta undir með bændum um áburðarkaup í þrjú ár, 1929–31. Nú lítur stj. svo á, að sú reynsla, sem fengizt hefir, sé þannig, að sjálfsagt sé að halda þessu áfram, a. m. k. um sinn; og með þessu frv. er stungið upp á, að um næstu þrjú ár verði látin í té sama aðstoð.

Um hitt orkar nokkuð tvímælis, í hvaða formi ætti að bera þetta fram. Eins og það er nú fram borið, er það á sama veg og gengið var frá því á þinginu 1928.

Annars get ég vísað til athugasemdanna við þetta frv. En til viðbótar vil ég þó geta þess, að miklir erfiðleikar eru á framkvæmd þessa máls eins og því var breytt og nú gildir. Búnaðarfélagið og áburðareinkasalan hafa framkvæmt þetta, og það hefir komið í ljós, að ómögulegt er að komast hjá töluverðu ranglæti. Ég er alls ekki ánægður með að flytja málið í þessu formi, en ég gat ekki fundið aðra leið heppilegri.

Ég lagði þetta frv. fyrir búnaðarþingið, sem nú er háð, og það afgreiddi á fundi í mörgun nýjar tillögur, sem eru einskonar bil beggja og auðveldari til framkvæmdar. Ég mun gera ráðstafanir til þess, að sú nefnd, sem fær frv. til meðferðar, fái þær röksemdir og tillögur, sem búnaðarþingið gerir.

Að öðru leyti mun væntanlegri nefnd standa opið að fá upplýsingar frá einkasölunni, Búnaðarfélaginu og einkum starfsmanni þess, Árna Eylands, sem aðallega hefir um þetta mál fjallað. Tel ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta, en legg til, að málinu verði vísað til landbn. að lokinni umr.