20.03.1931
Neðri deild: 29. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í C-deild Alþingistíðinda. (866)

20. mál, búfjárrækt

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég get látið í ljós ánægju mína yfir því, að hv. landbn. virðist, eftir síðustu ræðu hv. frsm. að dæma, vera fús til samkomulags um sum einstök ágreiningsatriði frv., og skal ég fyrir mitt leyti lýsa því yfir, að ég er mjög fús til samvinnu við hv. n. um afgreiðslu þessa frv. Ég skal geta þess, að mér var þessi síðasta ræða hv. frsm. sérstaklega geðfelld, enda mun það í rauninni mjög lítið, sem á milli okkar ber í þessu máli, og sennilega miklu minna en nál. bendir til. Mér er því óljúft að deila við hann um þetta mál, enda gerist þess ekki þörf frekar, að svo stöddu, því að sumpart hefir n. tekið bendingar mínar til greina og sumpart gefið fyrirheit um að gera það og lofað að fresta atkvgr. um einstakar brtt. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að tala langt mál að þessu sinni; get ég í öllum aðalatriðum vísað til ræðu minnar í gær. Ég mun taka til máls við síðari umr. hér í þinginu, ef þörf gerist, en annars á ég það undir hv. deild, hvernig hún sker úr þessu máli.