20.03.1931
Neðri deild: 29. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í C-deild Alþingistíðinda. (873)

20. mál, búfjárrækt

Jón Sigurðsson:

Hæstv. forsrh. þótti ég taka of djúpt í árinni viðvíkjandi ummælum hans í garð n. þýðir ekki fyrir okkur að vera að kíta um það, því að það, sem annar segir skorið, segir hinn klippt. Ég kunni því illa, að hæstv. ráðh. skyldi vera að víkja við orðum mínum í svarræðu sinni. Hann gerði mér upp þau orð, að ég hefði talið það merkilegt, að hann skyldi bera ráðunautana fyrir sig í þessu máli. þetta sagði ég ekki, heldur það, að mér kæmi það undarlega fyrir sjónir, að hæstv. ráðh. væri að veifa ráðunautunum fyrir sér nú við þessa umr., og hefi ég gert grein fyrir því í fyrri ræðu minni.

Þá sagði hæstv. forsrh., að ég hefði staðhæft, að í frv. fælist ekkert nýtt. Voru þetta ekki mín orð, heldur sagði ég, það, að það gæti ekki kallast nýtt, sem nú þegar er í l. eða reglugerð Búnaðarfélagsins. Sný ég og ekki til baka með það, að nýmæli frv. eru á þann veg, að Búnaðarfélagið hefir ekki seð sér fært að taka þau upp hingað til, enda eru þau á lausum grundvelli reist og því meira en vafasamt, hvort þau eiga við hér á landi. Eru þessi nýmæli óreynd og illa hugsuð, eins og ég færði dæmi til um og hæstv. ráðh. hefir í engu hnekkt. Þegar verið er að lögbinda gjöld um lengri tíma, á einungis að lögbinda það, sem auðsynt er um, að megi að notum koma. Er það sjálfsögð varúð, ekki sízt á þessum krepputímum. — Skal ég svo að lokum endurtaka það, að þegar um atriði er að ræða sem þessi, álit ég, að rétt sé að fela Búnaðarfélaginu að gera smátilraunir með þau. Þarf það ekki að leiða til mikilla útgjalda, en með því móti fæst reynsla um þessi atriði, og ef hún synir, að af þeim megi gagn leiða fyrir landbúnaðinn, skal ekki standa á mér til að veita þeim brautargengi. Er það annað en að hlaupa eftir till. Péturs eða Páls að meira eða minna eða alveg órannsökuðu máli.