30.03.1931
Neðri deild: 37. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í C-deild Alþingistíðinda. (881)

20. mál, búfjárrækt

Hákon Kristófersson:

Það er æfinlega ástæða til að gleðjast yfir góðu samkomulagi, en ekki hefði ég búizt við, að svo skjótt skiptist veður í lofti, að hæstv. forsrh. færi nú að syngja n. lof og prís, þó að hún beri nú fram brtt., sem hann lagði áherzlu á við síðustu umr., að ekki yrðu samþ. Mig furðar á því, að hæstv. ráðh. skyldi ekki gera neina grein fyrir ástæðunum til þessara snöggu veðrabrigða, þar sem ýmsar brtt. n. miða að því að fella niður eða breyta að mun gr., sem eru mjög þýðingarmiklar að áliti hæstv. ráðherra.

Skal ég þá koma að brtt. mínum á þskj. 301, sem hv. frsm. minntist á. Það er rétt, að þær miða að því að færa skattinn niður, sem leggja skal til fóðurbirgðafélaga. Tel ég nauðsynlegt að fara mjög varlega í allri útþenslu á sköttum, sem Alþingi leggur til, að lagðir séu á landsmenn. En ég held, að þó að brtt. yrði samþ., þá sé hún þess eðlis, að greiðsla til félaganna yrði samt nægileg og stofnun þeirra mjög auðveld þrátt fyrir þessa breytingu. Hinsvegar álít ég, að n. gangi of langt í þessu efni. Eftir till. hennar á framlagið til fóðurbirgðafélaganna að vera hvorki meira né minna en 30 kr. á hvern félagsmann. (LH: Þetta eru heimildarlög). Já, en þau eru búin til í þeim skilningi, að heppilegast og bezt sé, að eftir þeim sé farið. Ég er alveg sammála hv. n. um nauðsyn slíkra félaga. En samkv. frv. þarf sveitarfélag, sem hefir 45 hlutaðeigendur, að greiða 1350 kr. til þessara félaga, en samkv. mínum till. 675 kr. Tel ég það betur í hof stillt, án þess að ég vilji þó gera lítið úr þeim hug, sem liggur að baki till. hv. n.

Þá legg ég einnig til, að árlegt gjald búenda af hverjum nautgrip verði 30 au., en eftir frv. er það 50 au. Þetta er ekki till. til verulegrar niðurfærslu, og munar litlu frá till. n. En mér er ekki ljóst, hvers vegna n. vill hafa svo mikinn mun á gjaldi fyrir nautgripi og hesta, eða helmings mun fullan. Ég sé enga ástæðu til þess, að þeir, sem eiga fjölda óþarfa hrossa, er þeir setja á guð og gaddinn, greiði fyrir þau minna gjald en nautgripi sína. Samkv. frv. yrðu í hreppi með 100 kýr, 100 hross og 3000 fjár greiddar 225 kr. í þessu augnamiði, en samkv. brtt. minni yrðu greiddar 205 kr. Ég býst ekki við, að hv. n. telji þetta muna svo miklu, að hún geti ekki þess vegna fylgt till. mínum. Hinsvegar verður það að vera aðalatriðið fyrir Alþingi, að félögin séu stofnuð. Vegna þeirra laga, er nú gilda, gengur stofnun slíkra félaga ekki betur en svo, að enn eru ekki til nema 11 á öllu landinu.

Önnur brtt. mín er við 7. brtt. n. á þskj. 294, og er þess efnis, að í stað 75 kr. styrks fyrir fyrstu verðlaunahrúta komi 45 kr. Finnst mér það ærið nóg, og get ég ekki séð, að það sé sambærilegt að veita svo háan styrk fyrir hvern kynbótahrút, en ekki nema 20 kr. fyrir hverjar 100 kynbótaær. — sé ég svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þessar brtt. Er það á valdi hv. dm. og hv. n., hvaða afstöðu þeir taka til þeirra.

Í sambandi við 17. brtt, n. á þskj. 294 vildi ég gera þá fyrirspurn til hv. n., hvort samþykkt þessarar till. gæti ekki orðið til þess að titiloka hreppsfélögin frá því að fá lán úr bjargraðasjóði, sem þau hafa heimild til að fá samkv. bráðabirgðaákvæðum frá 1913, 12. gr. Þar er svo fyrir mælt, að hreppsfélög skuli eiga kost á að fá bráðabirgðalán til eins árs og vaxtalaust úr bjargráðasjóði. En ef það yrði nú samþ. að veita lán úr sjóðnum gegn 5% vöxtum, gæti það þá ekki orðið til þess að gera þessi bráðabirgðalan torfengnari en ella? Ég held, að ákvæðin um þessi lán standi enn óbreytt, og kynni ég þá betur við, að skírskotað væri til þeirra, ef frv. þetta verður að logum, sem ég efast ekki um, að það muni verða.

Ég sé nú á till. n., að hún hefir fallizt á, að styrkja megi 8 sauðfjárræktarbú, eða 2 í fjórðungi hverjum. Upphaflega var ætlazt til, að þau yrðu í hverri sýslu, og því hélt hæstv. ráðh. fast fram, en nú hefir hann gengið svo langt til samkomulags, að hann hefir fallizt á, að þau séu aðeins 8 á öllu landinu. Ég fyrir mitt leyti hefði heldur kosið, að eitt bú yrði í hverri sýslu. Myndi þá verða að þeim miklu meiri not heldur en með því að hafa þau svo dreifð sem n. vill, þótt það bæti að vísu nokkuð úr, að nú hefir hún fært þau upp í 8 úr 4, sem hún lagði til, að þau skyldu verða við 2. umr. frv. — Hvað samkeppninni milli sauðfjárræktarbúa viðvikur, þá hefir hún 5000 króna kostnað á ári í för með sér fyrir ríkissjóð. Væri ekkert við því að segja, ef af henni gæti leitt veigamiklar umbætur, en að öðrum kosti álít ég verr farið en heima setið.

Yfirleitt er ég samþykkur brtt. hv. n., og skal ég ekki orðlengja um þær frekar. En ég vildi gjarnan, að hv. frsm. n. vildi láta uppi skoðun sína um það, hvort ákvæði 17. brtt. n. geti ekki komið í bága við 1. um bjargráðasjóð, er ég talaði um í þessari ræðu minni.