18.02.1931
Neðri deild: 3. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í C-deild Alþingistíðinda. (897)

27. mál, kirkjur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Þetta frv. fer ekki fram á aukin útgjöld fyrir ríkissjóð, heldur er með því stefnt að betra skipulagi um meðferð kirkna.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, hvílíkir misbrestir eru á því, að meðferð kirkna hér á landi sé svo sem vera skyldi. Hinsvegar hefir reynslan orðið sú, allsstaðar þar sem komið hefir til mála að færa saman prestaköll og fækka prestum, að söfnuðurnir hafa borið fram eindregin mótmæli gegn því, svo að helzt lítur út fyrir, að menn vilji halda óbreyttri þeirri prestatölu og kirknatölu, sem nú er. Af slíku getur að sjálfsögðu ekki annað leitt en að komið verði í veg fyrir, að kirkjurnar séu vanræktar svo mjög sem nú eru þær. Það er ekki vansalaust fyrir okkur sem menningarþjóð, að kirkjurnar eru víða notaðar til að þurrka þvott í, t. d. að taka, auk þess sem algengt er, að þær séu notaðar til almennrar geymslu. Hefi ég ekki óvíða séð það, þar sem mig hefir borið að kirkjustað, að þvottur hefir verið breiddur á kirkjubekkina. Má nærri geta hverjum augum útlendingar muni líta á slíka meðferð kirkna, þeir sem ferðast um hér á landi.

Það er nauðsynlegt að kippa þessu til betra horfs. Frv. gengur í þá átt, að komið verði föstu skipulagi á meðferð kirkna, og er það eina leiðin til þess að ráða bót á þessu efni. Treysti ég því, að hv. deild sjái, að frv. stefnir í rétta átt og veiti því brautargengi.

Að svo mæltu vildi ég leggja til, að frv. yrði vísað til allshn., að umr. lokinni.