18.02.1931
Neðri deild: 3. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í C-deild Alþingistíðinda. (898)

27. mál, kirkjur

Héðinn Valdimarsson:

Ég ætla ekki að fara að hefja umr. út af þessu frv., en í sambandi við það vildi ég leyfa mér að gera fyrirspurn til hæstv. stj. viðvíkjandi stjfrv. yfirleitt.

Svo er mál með vexti, að ég hefi orðið þess var, að ýmsir stuðningsmenn stj. hafa fengið stjfrv., áður en þeim hafði verið útbýtt meðal þm. Að minnsta kosti hefi ég ekkert stjfrv. séð, fyrr en hér á þingi, og sama hefir verið um þá þm., sem ég hefi átt tal við um þetta. Er það mjög vítavert, ef þm. er að þessu leyti gert lægra undir höfði en stuðningsmönnum stj., því að þm. eiga að sjálfsögðu að fá frv. fyrstir manna, og sem fyrst, svo að þeir geti rakið efni frv. á þingmálafundum og þannig gefið kjósendum sínum tækifæri til að taka afstöðu til þeirra. Vildi ég gjarnan heyra, hverju hæstv. stj. hefir til þessa að svara.