18.02.1931
Neðri deild: 3. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í C-deild Alþingistíðinda. (899)

27. mál, kirkjur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég held að það sé um misskilning að ræða hjá hv. 2. þm. Reykv., hvað þetta snertir. Núverandi stj. hefir í þessu efni fylgt venju fyrirrennara sinna. Meðan við framsóknarmenn vorum í andófi, fengum við aldrei að sjá stjfrv. fyrir en á þing var komið. Minnist ég þess, að á meðan hv. þm. Dal. var ráðh., fékk enginn neitt að vita um það, sem hann var að brugga. Fæ ég ekki séð, að það sé átöluvert nú fremur en áður, þó að stj. sendi frv. ekki til þm. löngu áður þing kemur saman. Hitt er annað mál, þó að horfið væri frá þessari venju, sem er ein af þeim fáu venjum, sem núverandi stj. hefir haldið frá fyrirrennurum sínum. Annars er það tilgangslaust að vera að sýna hv. 2. þm. Reykv. og hans flokksbræðrum stjfrv., því að til þessa hafa jafnaðarmenn ekki látið svo litið að halda þingmálafundi með kjósendum sínum. Þar gegnir öðru máli um íhaldið og okkur framsóknarmenn.

Ég get að lokum látið þess getið, að ég minnist þess ekki, að aðrir þm. en hv. 2. þm. Rang. hafi spurt mig um stjfrv. Sagði ég honum lauslega frá efni þeirra, og lét hann sér það nægja. Þessar ákúrur hv. 2. þm. Reykv. ná því ekki til mín.