18.02.1931
Neðri deild: 3. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í C-deild Alþingistíðinda. (901)

27. mál, kirkjur

Héðinn Valdimarsson:

Hv. þm. Dal. hefði getað sparað sér hluttekningu sína, því að hann veit vel, að við jafnaðarmenn erum ekki stuðningsmenn núverandi stj.

Hæstv. dómsmrh. þótti það afsökun á þessu framferði stj., sem ég lýsti í fyrri ræðu minni, að hið sama hefði átt sér stað í tíð íhaldsins. Fæ ég nú reyndar ekki séð, að nein afsökun sé fólgin í þessu. Annars þarf ekki meira um þetta að ræða. Hæstv. Dómsmrh. hefir lýst því ótvírætt yfir, að við jafnaðarmenn höfum ekkert að gera með það að fá stjfrv. og ættum því ekki að fá þau, heldur aðeins Framsóknar- og Íhaldsflokkurinn. ég hygg annars, að við jafnaðarmenn afrækjum ekki kjósendur okkar meira en aðrir flokkar í landinu, nema síður sé. Það kann að vera, að við höldum minna af þingmálafundum, en við höldum í þess stað flokksfundi. Og ég veit ekki betur en að sumir af fundum hæstv. ráðh. hafi verið réttir og sléttir flokksfundir. Hæstv. ráðh. ferst því ekki að vera að hafa hátt um þetta.