18.02.1931
Neðri deild: 3. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í C-deild Alþingistíðinda. (903)

27. mál, kirkjur

Jóhann Jósefsson:

Úr því að verið var að hefja þessar umr. á annað borð, get ég ekki látið hjá líða að taka í sama streng og hv. 2. þm. Reykv. Það vildi svo til fyrir skömmu, að ég var staddur á fundi með þessum hv. þm. og dýralækni stj. En ég get sagt það fyrir mitt leyti, að ég hefi aldrei fengið stjfrv. svo snemma, að ég hafi getað haldið fundi um þau með kjósendum mínum, og mega þó teljast greiðar póstgöngur til Vestmannaeyja. Þótt ég hafi dregið fram á síðustu viku fyrir þing að halda fundina, hefir það komið fyrir ekki, og ég hygg að það sé regla hjá hæstv. stj., að beita þeirri aðferð við andstæðinga sína. Hæstv. dómsmrh. hvað þessa reglu hafa gilt í tíð fyrrverandi stjórna, en hv. þm. Dal. hefir mótmælt því, að svo hafi verið í sinni stjórnartíð, og má ætla, að aðrar fyrrverandi stjórnir hafi fylgt sömu reglu og hann í þessu efni.

Ég verð að telja það mjög ámælisvert af stjórninni að halda fyrirætlunum. sínum leyndum, svo að þingmönnum gefist ekki kostur á að fá álit kjósenda sinna um þær. Þetta á jafnt við, hvort sú stjórn, sem að völdum situr er Tímastjórn eða ekki. Ég hefi kvartað undan þessari aðferð við hæstv. dómsmrh. einslega, og hefir hann sagt, að sömu aðferð hafi verið beitt við sig, meðan hann var í stjórnarandstöðu. En hvað sem því líður, er það jafnóþolandi. þessi þjóð hefir sannarlega nóg að bera af sköttum og álögum, auk ýmiskonar gerræðis og ofbeldis af hálfu stjórnarvaldanna í seinni tíð, þó að kjósendur séu eigi sviftir þessum rétti sínum, að láta í ljós álit sitt á þeim málum, sem stjórnin leggur fyrir þingið.