18.02.1931
Neðri deild: 3. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í C-deild Alþingistíðinda. (909)

27. mál, kirkjur

Einar Jónsson:

ég er nýkominn á fundinn og því ekki vel kunnugur, um hvað umræður hafa snúizt, en mér skilst að deiluefnið sé það, að stjfrv. sé eigi útbýtt nógu snemma meðal þingmanna áður en þing er sett. Við þm. Rang. héldum fundi skömmu fyrir þing, en á þeim fundum hafði ég ekkert plagg í höndum um fyrirætlanir stjórnarinnar á næsta þingi. Ég gerði að vísu ráð fyrir, að mál, sem óútrædd voru á síðasta þingi og máli þóttu skipta, kæmu aftur fyrir í vetur, en aðrar upplýsingar gat ég ekki gefið um mál, sem tekin yrðu til meðferðar á þessu þingi. Samþingismaður minn hafði að vísu tekið eitthvað af stjfrv. með sér austur, en svo illa tókst til, að hann týndi þeim eða gleymdi áður en til funda kæmi. Mér finnst það næsta ranglátt, að þeir þm., sem búa í Rvík, njóti hærri réttar en aðrir í þessu efni, með öðrum orðum, þm. Reykv. eiga enga kröfu til þess, að fá stjfrv. á hönd, áður en þing er sett, frekar en aðrir þm., sem fjær búa. Tel ég þá miklu nær að láta engan þingmann sjá frv., fyrr en á þing er komið.

Annars álít ég, að sú stjórn, sem nú situr, hafi hér nokkra afsökun, þar sem hún mun ekkert semja af frv. sínum sjálf, heldur ræður sérstakar nefndir eða sérstaka menn til þess fyrir sína hönd. Hún veit því ef til vill ekkert um, hvað samning frumvarpanna líður. Það hefir verið regla um langa liðna tíð, að frv. stjórnarinnar kæmust ekki í hendur þm. fyrr en í þingbyrjun. Hvort sem breytt verður þeirri reglu eða ekki í framtíðinni, þá legg ég áherzlu á, að meðan allir fá ekki frv., fái enginn þau. En af því, sem ég sagði hér að framan, er auðsætt, að stj. hefir metið sína flokksmenn meira en aðra, þar sem samþingismaður minn fékk frv. með sér, en ég ekkert, enda þótt svo færi, að hvorki honum né kjósendum hans kæmu þau að notum, vegna gleymsku eða vangar.