18.02.1931
Neðri deild: 3. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í C-deild Alþingistíðinda. (911)

27. mál, kirkjur

Gunnar Sigurðsson:

Það er rétt hjá hæstv. dómsmrh., að ég átti lauslegt samtal við hann um stjfrv. hans áður en ég fór austur. Hinsvegar biðum við eftir frv., sem okkur þótti miklu varða, þ. e. frv. um brýr og fyrirhleðslur á vatnasvæðinu eystra, en það frv. gátum við ekki fengið, af því að vegamálastjóri hafði það ekki til.

Það var aðeins eitt þingmál, sem ég hafði sérstakan áhuga fyrir að nái, vegna þess að það snerti sérstaklega mitt kjördæmi. Það var um vatnamál Rangæinga. Það frv. fékk ég á síðustu stundu. Vissi ég, að það stafaði af því, að frv. var ekki fyrr tilbúið frá vegamálaskrifstofunni. — Hv. samþingismaður minn sagði að ég hefði gleymt að hafa frv. með á fundina. En það er að mestu leyti misskilningur. Ég hafði það með á tveimur fundum, en vegna þess að ég fór mjög snemma morguns af stað á þriðja fundinn, þá gleymdi ég að láta frv. í töskuna. Þetta kom þó ekki að sök, því að ég mundi vel efni frv.

Ég get tekið undir það, að óþægindi eru að því fyrir þm., að stjfrv. eru eigi svo snemmbúin, að þm. geti lagt þau fyrir til umræðu á þingmálafundum. En ég vil þó skjóta því til hæstv. fors., að mér finnst ærið óviðkunnanlegt að blanda slíku máli inn í það mál, sem nú er virkilega á dagskrá. Vona ég að það komi ekki fyrir oftar.