18.02.1931
Neðri deild: 3. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í C-deild Alþingistíðinda. (914)

27. mál, kirkjur

Benedikt Sveinsson:

Ég stend upp vegna þess, að ég mun vera einna fyrstur þm., sem átalið hafa, að stjfrv. koma jafnan síðla fram. Það var í stjórnartíð Hannesar Hafsteins. Ég mun einnig hafa ýtt við næstu stjórn, sem par kom á eftir, um þetta. En niðurstaðan vill ávallt verða sú hin sama, að stjórnarfrv. verða síðbúin. Munu, þegar bezt lætur, tók á fyrir þá þm., sem búsettir eru í Reykjavík, að sjá frv. nokkrum dögum fyrir þing, en sjaldan tími til þess að senda þau út um land áður þingmenn fari heiman, því síður, að færi sé að bera þau undir kjósendur. Hæstv. forsrh. lýsti ástæðum að þessum töfum, meðal annara þeirri, að frv. þurfa að leggjast fyrir konung. — En þótt frv. væru eigi fullsamin að öllum frágangi, þá væri þó hagkvæmt að landsmönnum væri kynnt meginefni þeirra áður, t. d. í stjórnarblöðunum, svo að færi gæfist á að ræða þau á þingmálafundum, og kjósendur ættu kost á að athuga þau og ræða um við fulltrúa sína, áður á þing kæmi.

Ef umræður þessar gætu orðið til þess, að horfið væri að því ráði, að stjórn vor birti landslýð höfuðatriði þeirra frv., er hún ætlar sér fram að bera, þá væri heim ekki til einskis varið. En hitt er satt, að þau mál, sem nú eru á dagskrá, gefa naumast mikla ástæðu til þess að þessar umr. hafi farið fram. Þau eru ýmist sjálfsögð á hverju þingi, svo sem er með tvo fyrstu málin, eða þá að þau voru kynnt á síðasta þingi. Svo er um 3., 4. og 5. mal. — Það væri þá helzt 6. málið, sem er þáltill. um að Ísland sæki um upptöku í þjóðabandalagið. En um það mál hefir mikið verið rætt og ritað. Meðal annars hafa fræðimenn skrifað um það í tímarit og haldið fyrirlestra um það í útvarp. — Þessar löngu umr. eru því óþarfar í sambandi við þau mál, sem nú eru á dagskrá. — En svo sem ég hefi þegar sagt, þá er þeim þó ekki á glæ kastað, ef þær mættu til þess verða, að betra skipulag fengist um birting stjórnarfrumvarpa framvegis.