12.03.1931
Neðri deild: 22. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í C-deild Alþingistíðinda. (924)

27. mál, kirkjur

Magnús Guðmundsson:

Ég vil gera grein fyrir brtt. við 2. gr. frv. Það þykir goðgá að segja, að kirkjur megi rúma „allt að“ 1/3 sóknarmanna. Ég skil þetta svo, að fara eigi sem næst því, að þær rúmi 1/3 hluta, og þannig býst ég við, að þetta yrði skilið í framkvæmdinni.

Mér finnst það allundarlegt hjá ríkisstjórninni, að koma fram með frv., sem skyldar hana til að byggja 2–3 nýjar kirkjur hér í Rvík. Í þjóðkirkjusöfnuðinum eru 18000 manns og 2 prestar. Því eiga að vera hér, eftir 2. gr. frv., kirkjur, er rúmi 3000 manns. Dómkirkjan rúmar 800 í sæti og þarf því viðbótarkirkjur fyrir 2200 manns. Má þó gera ráð fyrir fólksaukningu. Mér finnst það undarlegt og bera vott um litla umhugsun, að ætla sér að gera ríkissjóði þetta að skyldu strax, því að eftir 2. gr. er skylt að hafa kirkjur svo stórar, sem þar er ákveðið. Sóknarnefnd Reykjavíkur gæti eftir frv. krafizt, hvenær sem er, 2–3 kirkna í viðbót eða þrefalt stærri kirkju en dómkirkjan er nú.

Ef þess er minnst, að stjórnin hefir strikað út úr fjárlagafrv. allar verklegar framkvæmdir og ætlar sér að draga úr þeim að mun á þessu ári, þá kemur það dálítið undarlega fyrir sjónir, að ætla að fara að byggja kirkju í Reykjavík fyrir 7–800 þús. kr. því er engin ástæða til að álasa meiri hl., þótt hann vilji ekki skilyrðislaust binda ríkissjóði þennan bagga.

Ég býst jafnvel við, að víðar í kaupstöðum landsins geti staðið svipað á og í Rvík, en um það eru engar upplýsingar í frv. Mér þykir trúlegt, að kirkjurnar í hinum stærri kaupstöðum landsins taki ekki 1/3 safnaðarins, en allar upplýsingar, sem um þetta, h. e. ákvæði 2. gr., eru gefnar í grg. frv. eru þetta:

„Um 2. gr. Löghelgar venju þá, er hingað til hefir verið fylgt, er kirkjur hafa verið reistar að nýju“.

Þetta eru allar skýringarnar, enda þótt ekki sé ólíklegt, að hér sé verið að leggja milljónabyrðar á landsmenn! Ég vil því gera mér vonir um, að meiri hl. hv. deildar hallist fremur að till. meiri hl. allshn. en frv. sjálfu eða brtt. hv. 2. þm. Reykv.

Þá kem ég að vátryggingu kirkna. Ég hefi ekki á móti því, að þær séu tryggðar í Brunabótafélaginu, ef þær eru ekki vátryggðar í brunabótafélögum sveitanna, en það er orðið algengt nú. Mér finnst því varhugavert að fastákveða að kirkjur séu vátryggðar í Brunabótafélagi Íslands.

Þá er það rétt, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að nefndin hefði strikað yfir orðið kirkjustjórn og sett orðið ráðherra í staðinn. Ég get tekið undir það, sem hv. frsm. nefndarinnar sagði, að orðið kirkjustjórn væri nokkuð víðtækt. Ég hygg, að með því sé meint söfnuðir, sóknarnefndir, prestar, prófastar, biskup og kirkjumálaráðherra. Þar sem því að brtt. nefndarinnar nefna ráðherra í staðinn fyrir biskup í frv., þýðir það, að ráðherra eigi endanlega að úrskurða um málið. Með því er atkv. biskups vitanlega ekki útilokað, enda munu auk þess flestir kirkjumálaráðherrar hafa þann sið, að hafa biskupinn fyrir meðráðamann um þau mál, er kirkjuna varða. Þessar brtt. þýða því ekki annað en það, að þessi og þessi mál geti gengið til ráðherra.

Ég tók ekki eftir því, hvað hv. frsm. sagði um brtt. við 13. gr. frv., en ég lit svo á, að með þeim sé sagt, að vera þurfi samhuga álit prófasta og sóknarnefnda um að kirkjubygging sé nauðsynleg, til þess að heimild sé gefin fyrir hækkun kirkjugjalds. Það er rétt hjá hv. þm. Borgf., að það er þörf á að breyta 3. gr. 2. lið í frv. til þess að fá samræmi við brtt. nefndarinnar, svo að enginn ágreiningur geti orðið.