18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í C-deild Alþingistíðinda. (940)

27. mál, kirkjur

Frsm. (Magnús Torfason):

Við 2. umr. var talsvert sneitt af frv. Ætla ég, að það hafi verið þau ákvæði, sem helzt þóttu orka tvímælis, eins og greinilega kom fram við umr. Ég skal játa það, að n. hefir farið mjúkum höndum um frv., jafnvel mýkri en hv. deild vildi. Þó er svo að sjá sem hv. dm. hafi ekki líkað, að þetta var skorið af frv., heldur eru nú fram komnar ótal brtt. Ég hygg, að þær séu eitthvað um 30, sem fyrir liggja við þessa umr.

Nefndin sjálf hefir aðeins borið fram 4 brtt. við frv. eins og það er nú.

1. brtt. er við 2. gr. 2. lið, þess efnis, að færa hana í það form, sem hv. deild vildi vera láta við 2. umr. málsins. Þó er nokkru frekar ákveðið í brtt. en í frv. Með öðrum orðum er úrskurðarvald prófasts numið burtu, og hygg ég það muni fyllilega vera í samræmi við þann vilja, sem fram hefir komið í þessari hv. deild.

2. brtt. er við 2. brtt. á þskj. 153. Þar er svo ákveðið, að menn skuli sæta sektum fyrir það, að hirða eigi um rétta meðferð á kirkju, og að óheimilt sé að nota hana til geymslu. Við í n. töldum, að þetta kæmi svo sjaldan fyrir og álitum ekki þörf á að gera lög um þetta. Fer brtt. okkar fram á, að sektarákvæði 2. brtt. á þskj. 153 sé fellt niður.

3. brtt., sem er við 17. gr., er aðeins leiðrétting og í samræmi við 3 brtt. á þskj. 171.

4. brtt. við 27. gr. 1. mgr., er alveg sjálfsögð. Enda þótt út sé gefin reglugerð, þá er viðkunnanlegra að hafa greinilegt ákvæði í lögunum um það, hvert þessar sektir skuli renna.

Ég þarf ekki lengri formála að sinni, en mun bíða þess, að hv. þdm. tali fyrir brtt. sínum.