18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í C-deild Alþingistíðinda. (942)

27. mál, kirkjur

Sveinn Ólafsson:

Ég á nokkrar brtt. á þskj. 171 ásamt hv. þm. V.-Ísf.

Vil ég leyfa mér að fara um þær fáum orðum, þótt hv. þm. Borgf. hafi að miklu leyti talað fyrir þeim og stutt þær einarðlega, en fyrir það kann ég honum þakkir.

Brtt. okkar hv. þm. V.-Ísf. eru flestar orðabreytingar. Efnisbreytingar eru ekki aðrar en þær, að við leggjum til, að úr 4. kafla frv. falli niður öll fyrirmæli, er lúta að skipun kirkjunefndar.

Brtt. við 1. og 2. gr. lúta að því, að ákvæðið um helgi kirkna og kirkjugarða nái einnig til bænhúsa, sem sennilega hefir fallið niður í ógáti hjá þeim, er sömdu frv.

Bænhús hafa verið til á stöku stað frá fornri tíð. Og mér finnst eðlilegt og sjálfsagt, að þau njóti sömu verndar og kirkjur almennt. Vel gæti það og komið fyrir, að upp kæmu kirkjur eða bænhús, sem væru eign einstakra manna, og virðist mér fullkomlega réttmætt að sú sama helgi ríki þar sem í kirkjugörðum og kirkjum. Eitt slíkt bænhús er í Papey við Austurland, og mun presti skylt að flytja þar messu einu sinni eða tvisvar á ári. Sömuleiðis er bænhús á einni þjóðjörð austanlands, sem nú mun að mestu fallið, en talið þó með viðhaldsskyldum jarðarhúsum og hefir jörðinni fylgt um margar aldir. Er líklegt, að það verði af nýju reist, með því að ábúandi hefir fengið álag þess greitt.

Skal ég svo ekki fara fleiri orðum um þessar brtt., en víkja að þeim síðari. 3. brtt. snertir aðeins fyrirkomulagsatriði, hliðstæð brtt. á þskj. 156, og þarf það engra skýringa.

Þá kem ég að aðalbreytingunni. Hún er við fyrirsögn 4. kafla, og er þar gert ráð fyrir, að í stað fyrirsagnarinnar: Um kirkjunefndir o. fl. komi: Önnur ákvæði. Við flm. lítum svo á, að kirkjunefndir þessar séu óþarfar og teljum óeðlilegt og misráðið að setja þessar kirkjunefndir til höfuðs sóknarnefndunum, sem skilyrðislaust ber að álíta réttan aðila um flest þau mál, er kirkjuna varðar. Enda virðist okkur frv. ekki afmarka starfssvið þessara kirkjunefnda eða ætla því önnur störf en almennt falla undir sóknarnefndir.

Af þessum ástæðum leggjum við til, að niður falli 18., 19. og 20. gr. En afleiðingin af því verður sú, að breyta þarf orðaskipun 21. gr. Niður þarf þá að falla skírskotun til kirkjunefndar í 18., 19. og 20. gr. — Sama máli gegnir um brtt. við 22. og 23. gr.; þær lúta að því að fella tilvísun til kirkjunefndanna niður úr frv.

Ég vil svo ekki tefja tímann með því að fara um þetta fleiri orðum; vona ég, að öllum hv. þdm. sé ljóst, að hverju brtt. okkar hv. þm. V.-Ísf. stefna. Í því trausti, að hv. d. fallist á þær, læt ég því máli mínu lokið.