18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í C-deild Alþingistíðinda. (947)

27. mál, kirkjur

Hannes Jónsson:

Það er út af brtt. á þskj. 156,6, að mig langar til að fá fulla skýringu á, hvað meint er með henni, til að koma í veg fyrir ágreining, sem af getur hlotizt. 6. brtt. er svo: „Kirkju má því aðeins flytja úr stað, að 3/4 hlutar atkvæðisbærra safnaðarmanna hafi samþ. færsluna“. nú vil ég fá að vita, hvað meint er með því að flytja úr stað. Til dæmis veit ég, að hætta varð við kirkju á Vatnsnesi vegna slíks ágreinings. Biskup vildi láta grafa á grunni gömlu kirkjunnar, en sóknarnefnd þótti ekki ástæðulaust, að kirkjunni væri valinn annar staður, og var það gert, en varð að hætta við það vegna slíks ágreinings. Finnst mér ekki, að sérstaka samþykkt þurfi til að gera út um þetta. Ég tek dæmi frá kirkjunni á Kirkjuhvoli, er verður endurbætt bráðlega. Þar hefir sóknarnefnd ákveðið, að hún verði flutt að Hvammstanga, og er þar um tæpan km. flutning að ræða. — Ég geri ráð fyrir, að flm. meini ekki, að þessi ákvæði nái til slíks flutnings, en ég vil biðja hv. flm. að gefa ákveðin svör, svo ekki sé um að villast.