18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í C-deild Alþingistíðinda. (949)

27. mál, kirkjur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég vildi segja fáein orð út af till. um að fella niður ákvæði um kirkjunefndir. Það má vel vera, að þeir hv. þm., sem telja betur farið, að frv. verið fellt, geti fært rök fyrir því, að verkefni sóknarnefndanna sé ekki meira en svo, að ein nefnd geti leyst það af hendi. En það, sem vakti fyrir kirkjumálanefnd var það, að kirkjur okkar eru yfirleitt nokkuð skrautlitlar, og að ekki væri hugsað um, eins og fyrr á öldum í kaþólskunni að prýða kirkjur og gera þær hlýlegar og vistlegar. Um langan aldur hafa sóknarnefndir aðeins annast fjármálastarfsemina, eins og við er að búast, en ekkert gert til að hlúa að kirkjunum. Mér er kunnugt um það, að hin síðustu ár hafa einmitt nefndir kvenna á ýmsum stöðum á landinu lagt mikla vinnu og fé til þess að prýða kirkjurnar. Það sem vakti fyrir kirkjumálanefnd var ekki það, að draga úr starfsemi sóknarnefnda, heldur að koma upp annari starfsemi, áður óþekktri. Kirkjur hér líta yfirleitt út eins og fundarhús. Þetta er einmitt þáttur í því, hvað mótmælendum reynist erfitt að keppa við kaþólskuna. Ég teldi þess vegna miður farið, ef þessi grein yrði felld úr frv., enda þótt ýmsir kunni að líta svo á, að óþarft sé að bæta við þessum nýju nefndum. En reynslan hefir sýnt, að kirkjur hér eru kaldar og óvistlegar, og er því þörf á að mynda nýjan farveg fyrir fólk til að hefjast handa í þessum efnum, farveg, sem hér hefir áður verið óþekktur.