18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í C-deild Alþingistíðinda. (950)

27. mál, kirkjur

Magnús Jónsson:

Ég vil þakka nefndinni og hv. frsm. fyrir það, hve vel n. tók í till. mínar og líka það, að n. hefir hallazt á þá sveif, sem mér var mikið áhugamál, að fella ekki till. um að hlúa að kirkjum. Ég gæti, ef ég vildi, blandað mér inn í umr. um Pál postula, því að ég mun vera kunnugri honum en flestir aðrir her. Það er einkennilegt, að þó að andstæðingar hans leituðu alltaf upp alla snögga bletti á honum, þá báru þeir honum aldrei á brýn, að hafa meiri mök við konur en sæmilegt var. En í bréfum sínum fer hann ávallt hlýjum og fögrum orðum um konur, kallar þær sínar elskulegu. Það sýnir, að í frumkristni voru það einmitt góðar konur, sem skutu skjólshúsi yfir söfnuðinn og unnu í honum hið ágætasta starf. Hitt er annað mál, að það kemur skýrt fram í bréfum þessa sama leiðtoga, að hann vill ekki láta konur hafa meiri afskipti af þessum málum en tíðarandinn þá leyfði. Hann vildi ekki, að þær töluðu á safnaðarfundum og vildi ekki, að þær kæmu fram öðruvísi en með hjúpað höfuð eins og þá var siður. Yfirleitt vildi hann ekki, að inn í þessa hreyfingu eða stefnu, sem honum var svo annt um, blönduðust neinar þjóðfélagsbyltingar.

Ég ætlaði aðallega að minnast á það, hvernig kirkjueignin hefir verið hér í Reykjavík. Kirkjan hér var byggð á árunum 1776–82. Þá voru hér rúmlega 300 manns. Síðan var ekkert gert við þessa kirkju fyrr en um miðja síðustu öld; þá var hún sett í það horf, sem hún er nú í. Þá voru hér um 1200 íbúar, síðan hefir fjölgað svo, að hér eru nú um 28 þús. manns. En enn er kirkjan óbreytt af hendi kirkjueigandans. Hitt er annað mál, að hér er risinn upp fríkirkjusöfnuður, og hjalpar það mikið til. Í dómkirkjusöfnuðinum munu vera um 18000 manns, og ennþá hefir kirkjan ekki nema 800 sæti. Er það óskapleg afkoma. Raunar getur maður sagt, að kirkjan hafi helmingi fleiri sæti, því að ríkið hefir séð fyrir 2 prestum. Og þó að það séu 1600 sæti, þá er það ekki nokkur afkoma, ef um það er hugsað, að margir eða þorri manna geti sótt kirkju, enda kemur það í ljós, hvenær, sem á reynir, að ómögulegt er að komast í kirkjuna.

Svo ætla ég að víkja að því, sem hv. frsm. sagði, að söfnuðurinn hefði sölsað undir sig allar eignir kirkjunnar. Það er fjarri sanni. Kirkjan átti margar jarðir, Neðri-Háls í Kjós, Breiðholt í Mosfellssveit, Forsæti í Landeyjum með hjáleigu, Sigluvík í Landeyjum með hjáleigum, Bygggarð og Bakka á Seltjarnarnesi. þessar eignir seldi ríkið og tók fullt verð fyrir, og þess vegna er því skylt að sjá fyrir sómasamlegri kirkju. Ennþá held ég, að eitthvað sé eftir af þessum jörðum. Bygggarður og Bakki eru ennþá óseldar. Ég vildi geta um þetta til að sýna, að ekki er til of mikils mælst.

Það gæti náttúrlega komið fyrir, að hestur kæmist fyrir altarið í kirkjunni, án þess að kirkjueigandi ætti nokkra sök á því, ef kirkjan væri opin og hesturinn á rölti þar í kring. En þetta með pokann í stólnum finnst mér svo fyndið, að ég trúi ekki öðru en hv. frsm. hafi skáldað það sjálfur.