18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í C-deild Alþingistíðinda. (951)

27. mál, kirkjur

Magnús Guðmundsson:

Ég minntist á það við 2. umr., að hæstv. stj. vildi ekki meira en svo kannast við faðernið að þessu frv. Þá svaraði hæstv. forsrh., að það væri ekki einsdæmi, því að ég og hv. 1. landsk. hefðum deilt mjög út af einu stjfrv. þetta er ekki rétt. Það mál, sem hann nefndi, var um breytingu á lögum um skipulag kaupstaða og kauptúna, og það var ekki stjfrv., heldur flutt eftir minni beiðni. Engar deilur urðu heldur um það milli mín og hv. 1. landsk. Þetta vildi ég aðeins leiðrétta.

Út af þessu frv. vil ég segja, að mig uggir, að einmitt vegna þess að það er nokkurskonar munaðarleysingi hér í d., muni satt að segja ekki verða næsta mikið eftir af veigamiklum atriðum, þegar frv. fer út úr d., og það mun jafnan verða svo, þegar frv. er flutt á þann veg, að enginn er sá, sem í raun og veru vill annast þau.

Ég gæti trúað, að eins og þetta frv. fer út úr d., ef flestar af þessum brtt. verða samþykktar, verði ekki mikið eftir af því, sem kirkjumálanefnd mundi hafa talið aðalatriði þess.