18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í C-deild Alþingistíðinda. (954)

27. mál, kirkjur

Einar Jónsson [óyfirl.]:

Ég er satt að segja farinn að þreytast á því að heyra dag eftir dag málþóf um ómerkileg mál eins og þessi frv. kirkjumálanefndarinnar um kirkjur og presta. Það er margt þarfara, sem þingið getur gert en það. Prestarnir eru að vísu af mörgum álitnir þarfir, og rétt er að taka vægum höndum á þeim. En þegar frá kirkjumálanefndarinnar hálfu koma fram 8 frv., sem eru meira og minna léleg, þá fer mér að blöskra. Öllum hv. þm. mun vera kunnugt um innihald þessara 8 frv., en þeir munu varla gera sér grein fyrir, hvað það kostar, að eyða mörgum dögum til að þvæla um þau.

Ég vona, að hæstv. forseti fyrirgefi mér, þó að ég nefni þessi frv., enda þótt þau séu ekki öll til umr. nú.

Eitt er frv. um bókasöfn prestakalla. Því fylgir ný nefnd, sem bókasafnsnefnd heitir. Annað er um utanfararstyrki presta. 2000 kr. á ríkið að verja í hendur hverjum presti. Til hvers? Líklega til fræðslu, en kannske til einskis. Kostnaður er það líka. Þriðja er um kirkjuráð. Það var á dagskrá í dag og mikið um það rætt. Þar átti að fylgja sérstök nefnd.

Um veitingu prestakalla er það fjórða. ég minnist ekki, að því fylgi neitt sérstakt ráð eða nefnd, en að mínu áliti er það ekki til bóta frá því sem er.

Hið fimmta er um embættiskostnað sóknarpresta. Þar er að vísu ekki sérstök nefnd eða ráð, en 500–700 kr. á ríkissjóður að greiða samkv. því.

Sjötta frv. er um kirkjugarða. Á það skal ég ekki minnast.

Sjöunda frv. er um byggingar á prestssetrum. Gæti ég trúað, að þar kæmi til kasta ríkissjóðs að svara út fé, umfram það sem verið hefir.

Hið áttunda er það frv., sem nú er hér á dagskrá, frv. til l. um kirkjur. Um það var verið að ræða í dag fram til kl. 4, og aftur nú í kvöld. Þar á að koma ný nefnd, sem heitir kirkjunefnd. Allt þetta bendir á, að áhugi stj. á kirkjumálum sé heldur á reiki, eins og bent var á í dag af snjöllum ræðumanni, og þegar stj. getur ekki fundið önnur ráð til þess að bæta kjör klerkanna, þá sé ég ekki annað en að hér sé fullt ráðleysi á ferð.

En þegar maður athugar þessar stjórnir og nefndir og ráð, og tekur ennfremur til athugunar allt annað, sem fer fram á nýjar nefndir, stjórnir og ráð, fer ég að skilja ýmislegt, sem fram er komið, og það sannar um leið, að stj. gerir ekki neitt nema kaupa nýja menn til að vinna þau störf, sem hún á sjálf að vinna.

Ég býst við, að flestir hv. þdm. hafi tekið eftir einhverju af þessum plöggum þessara nefnda, og allar till. þeirra miða síðan að því að stofna ný og ný „ráð“, nýjar nefndir og nýjar stöður. T. d. hefir mér borizt hér í hendur frv. um breytta tilhögun á lax- og silungsveiði. (Forseti IngB: Það liggur hér ekki fyrir til umr.). Nei, að vísu ekki, og þótt ég hefði haft nokkra ástæðu til þess að drepa á sumt af þeim till., þá mun ég samt hlíta úrskurði hæstv. forseta, og láta það bíða betri tíma.

Ég vil aðeins bæta því við, hvort hv. þdm. hafi gert sér ljósa grein fyrir því í gær og í dag, þegar umr. um þetta mál hafa orðið svo langar, að þær hafa tekið meiri tíma en dagskráin hefir gert ráð fyrir, og hinn venjulegi fundartími tveggja daga hefir ekki hrokkið til að ræða þetta eina mál, hversu varhugavert það er, að eyða helzta starfstíma þingsins í umr. um alveg óþörf og nauðaómerkileg mál, en verða síðan fyrir þá sök að flaustra af þörfum málum, þá er líður að þinglausnum. Ég bið menn að hugsa til síðustu daganna, þegar góð mál sofna eða fá ekki sæmilega afgreiðslu vegna þessara mála, sem verið er að eyða höfuðstarfstíma þingsins í að ræða, og ég tek undir með hv. þm. Barð., að ég vildi helzt vera laus við þetta drasl frá kirkjumálanefndinni, en hitt væri miklu nær, úr því að prestarnir eru nú sú stétt, sem alltaf þykist vera svöng, að rétta þeim eitthvað meira að éta, í stað þess að fara þessa leið, sem ekkert er annað en átylla til þess að geta rétt fáeinum mönnum kjötbita úr kjötpotti landsins.

Ég mun svo greiða atkv. á móti öllu þessu dóti kirkjumálanefndarinnar, í hverri mynd sem það birtist. Mér finnst alveg nóg komið af þessum ófögnuði, sem nokkrir menn, fyrir kaup úr ríkissjóði, eru að senda inn í þingið, alveg að þarflausu og mér blöskrar þetta vinnulag.