07.04.1931
Efri deild: 40. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í C-deild Alþingistíðinda. (974)

12. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Þorláksson:

Eins og getið hefir verið um, þá gerir frv. þetta tvær höfuðbreytingar á stjórnarskránni. Og áður en ég tala um brtt. þá, sem ég ásamt hv. þm. Seyðf. hefi borið fram, þá vil ég fara nokkrum orðum um afstöðu mína til þessara tveggja höfuðbreytinga. Skal ég þá fyrst minnast á þá breytingu að færa aldurstakmarkið fyrir kosningarrétt og kjörgengi úr 25 niður í 21 ár. — Sú skoðun hefir nú rutt sér til rúms á síðustu árum, að sú breyting sé réttmæt og má gera ráð fyrir því, að fullt samkomulag verði um hana. Við þá breytingu fjölgar kjósendum um 15%. Er því öldungis hugsunarrétt afleiðing af þannig breyttri löggjöf, að kosningar fari þegar fram, svo að hinir nýju kjósendur geti strax neytt þeirra áhrifa á skipun Alþingis, sem löggjöfin ætlar þeim. Það er ekki rétt, að þing sitji í 3 ár, án þess að vera skipað af öllum þeim mönnum, sem stjórnarskráin gefur heimild til þess.

Ég hefi því, ásamt hv. 2. landsk. og hv. þm. Seyðf. gerst meðflm. að því, að kosningar verði látnar fara fram, þegar þessi rýmkun á kosningarréttinum hefir verið lögfest.

Þá er hin höfuðbreytingin, um afnám landskjörinna þm. Mér finnst nokkur ástæða til að gera grein fyrir því, hvers vegna ég ljæ nú máls á því, að fylgja þeirri breytingu. Eftir síðasta manntali munu vera rúm 108 þúsund manns á öllu landinu. Af þeim eru nú 28 þús. búsettir í Rvík, en liðug 80 þús. utan Rvíkur. Koma því um 2500 íbúar á hvern þm. utan Reykjavíkur, en yfir 7000 íbúar á hvern hinna 4 þm., sem Reykjavík hefir. Hér er atvinnulíf fjörugast og fjölgun fólksins örust. Er því réttur hvers kjósanda í Rvík skertur um 2/3 á móts við kjósendur annara landshluta. Og sú skerðing eykst meir og meir, eftir því sem fólkinu fjölgar meira hér en annarsstaðar. Í landskjörinu fólst dálitil bot á þessu, því að í því fengu atkv. manna að njóta sín allsstaðar jafnt. En sú réttarbót er þó mjög takmörkuð, og auk þess hefir landskjörið ýmsa ókosti. Var gerð nokkur grein fyrir því í sambandi við frv. til stjórnlagabreytingar, er lagt var fyrir Alþingi 1927; m. a. var þess getið, að með því fyrirkomulagi sem er á landskjörinu, þá kostar skipun þingsins kosningar um land allt að jafnaði annaðhvort ár, eða tvisvar á hverjum 4 árum. Þá er og ýmislegt fleira, sem við það er að athuga. En aðalgallinn er þó sá, hve lítið það bætir úr því misrétti, sem núverandi kjördæmaskipun veldur.

Það er nú alveg auðvitað, að hið mikla misrétti, sem ýmsir landshlutar, einkum þó Rvík, eru beittir nú, getur ekki haldizt til lengdar. Er þá um tvær aðferðir að ræða, þegar bæta á úr þessu misrétti. Önnur er sú, sem Framsóknarflokkurinn beitti, þegar hann gerði Hafnarfjörð að sérstöku kjördæmi. Hin aðferðin er að láta hina vaxandi kaupstaði fá nýja þm. eftir því, sem fólki fjölgar þar. Hver þessara aðferða hefir sína kosti og sína galla. Hin fyrri hefir þann kost, að með henni er þm. ekki fjölgað. En gallinn er sá, að leitt er að svifta gömul kjördæmi þm. Ég fyrir mitt leyti álít, að sem minnst ætti að gera að því. Síðari leiðin hefir ekki þennan galla. En hún hefir stöðuga fjölgun þm. í för með sér. Er það hennar eini okostur. Nú eru þm. svo margir, að eðlilega verður mótstaða gegn mikilli viðbót þm. Ef því ætti að halda núverandi tölu þm., þá yrði það til þess, að fyrri leiðin væri farin og ryddi sér til rúms í beinu framhaldi af því, sem gert var gagnvart Hafnarfirði. Þá yrðu þingsætin smátt og smátt reitt af sveitakjördæmum og lögð til kaupstaðanna, eftir því sem kröfurnar verða sterkari og ómótstæðilegri frá hinum vaxandi kaupstöðum. Ég sé því enga aðra leið færa til að bæta úr því misrétti, sem nú er á kjördæmaskipuninni en þá, að leggja niður landskjörið og bæta kaupstöðunum upp með þeim sætum, er losna. — þetta er eina ástæðan fyrir því, að ég get verið með niðurlagningu landskjörsins. Breytingin ein út af fyrir sig, eykur að vísu misréttið og er því í raun og veru spor aftur á bak. En ég vil þó vinna til að vera með því, einmitt í þeirri trú, að þá verði fremur bætt, svo að um muni, úr því mikla ranglæti, sem nú orðið á sér stað. Vona ég, að um það fáist fljótlega samkomulag.

Þá vil ég nokkuð minnast á brtt. þær, sem ég er riðinn við. Brtt. á þskj. 265 þarf ég þó ekki að tala frekar um. Nauðsyn nýrra kosninga, um leið og rýmkað er um kosningarréttinn og kjósendum þar með fjölgað, er alveg augljóst mál. — Brtt. á þskj. 266 eru fremur orðabreytingar til lagfæringar en efnisbreytingar. Eru þær tvær og báðar við 1. gr. frv. Sú fyrri: „Fjölga má þingmönnum með lögum“. Kemur í staðinn fyrir svohlj. málsl.: „Tölu þeirra (þ. e. þingmanna) má breyta með lögum“. Er lagt til, að aðeins megi fjölga þm. Er það gert af tveimur ástæðum. Hin fyrri er sú, að telja má ólíklegt, að þm. verði nokkurntíma færri en 36. Hin ástæðan er sú, að síðar í fyrstu gr. frv. er eingöngu gert ráð fyrir því, að þm. fjölgi, þar sem talað er um skiptingu í deildir. Þar er alls ekki gert ráð fyrir því, að tala þm. verði hreyfð til beggja hliða. Að vísu mætti líka laga þetta, með því að breyta orðalagi 3. málsgr. En ég tel enga þörf á því, að nein heimild til fækkunar felist í stjórnarskránni, þar sem telja má víst, að hún yrði aldrei notuð.

Þá er síðari brtt. á sama þskj. Hún felur í sér, að ákveðið sé í stjórnarskránni, að kosningar þm. til Ed. fari fram með hlutfallskosningu. Þetta hefir nú verið framkvæmt svo um langt skeið, en það hefir ekki verið ákveðið í sjálfri stjórnarskránni. Telja má þó, að það liggi í hlutarins eðli, að þegar ætlazt er til, að Sþ. ráði eingöngu skipun Ed., þá sé það gert með hlutfallskosningu eingöngu. Ég lít því svo á, að þetta sé í sjálfu sér svo mikilsvert atriði, að það eigi að standa í stjórnarskránni. Þá er ekki hægt með einföldum lögum að ákveða það, að einfaldur meiri hl. ráði kosningu til Ed. En með því mætti raska hinni sjálfsögðu reglu, að flokkarnir hafi hlutfallslega sama atkvæðamagn í Ed. og Nd. Ég vil nú álíta, að það hafi verið meining stjórnarinnar, að þannig væri skipað í deildir. Er því ekki um neina efnisbreytingu, heldur einungis formbreytingu að ræða, með því að taka þetta upp í frv.