07.04.1931
Efri deild: 40. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í C-deild Alþingistíðinda. (976)

12. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Baldvinsson:

Hæstv. forsrh. hefir nú látið í ljós álit sitt um till. þær, sem fram hafa komið, og sannast að segja finnst mér hann taka heldur illa á móti þeim tilraunum, sem gerðar eru, til þess að koma þessu áhugamali stj. áleiðis, og bæta úr sýnilegum ágöllum á því. Mér finnst ekki rétt hjá hæstv. forsrh., þegar hann kallar það af litlum heilindum gert, þegar komið er með breytingar til bóta á stjfrv. Enda játaði hæstv. ráðh., að ýmsar af till. mínum væru til bóta og bjóst jafnvel við, að ef hann ætti hér atkvæði, mundi hann ljá þeim fylgi.

Hæstv. ráðh. var í órólegu skapi. Hann talaði um, að sýnilegt væri af þessum tillögum, að samkomulag væri milli flokkanna til beggja handa. Það er satt, að við flytjum saman eina brtt. á þskj. 265, hv. þm. Seyðf., hv. 1. landsk. og ég. Þessi till. er í rauninni ekki annað en sjálfsögð afleiðing af þeirri breyt., sem hæstv. stj. ber fram. Hæstv. ráðh. sér í þessari einu sameiginlegu till. eitthvert samkomulag og er afar-hnugginn yfir þessu. mér finnst hann hinsvegar eigi að vera glaður yfir þessu og ætti að koma til stuðnings við till., svo að friður og samkomulag yrði um þetta frv. stj. hér á Alþingi, enda býst ég við, að hæstv. forsrh. æski þess helzt. Annars kemur það nú einstaka sinnum fyrir, að ég greiði atkv. með andstöðuflokkunum. Það er vitanlegt, að bæði íhöldin eru andstöðuflokkar Alþýðuflokksins; þeir eru báðir andvígir stefnumálum hans; og einn aðalforingi litla íhaldsins lýsti yfir því, að hvenær sem Alþýðuflokkurinn reyndi að koma áleiðis sínum stóru stefnumálum, mundi hann taka höndum saman við hv. 2. þm. G.-K., til þess að berja þau niður; og hann tók svona djúpt í árinni vegna þess að sagt er, að mjög sé grunnt á því góða milli þessara tveggja þm. Við Alþýðuflokksmenn þurfum þessvegna, til þess að koma áleiðis okkar málum, að eiga fylgi manna úr öðrum flokkum, og verðum að taka það alveg eins og málin liggja fyrir. Stundum eigum við samleið með stóra Íhaldinu, eins og þegar það samþ. með okkur höfnina í Hafnarfirði, og stundum eigum við samleið með litla Íhaldinu og samþ. frv. með því.

Hæstv. ráðh. má ekki þykjast eiga einkarétt á því að gera samninga. Það er kunnugt, að bæði íhöldin eru sammála í flestu. Ég veit ekki betur en að það hafi verið yfirlýstir samningar þeirra í fyrra að slíta þingi í miðju kafi og drepa — stefnumál Alþýðuflokksins. Mér er líka sagt, að talsvert stífar samninga-umleitanir hafi staðið milli þessara flokka um að koma fram ýmsum málum. Hæstv. ráðh. má ekki vera svona hvimpinn, þótt hann sjái okkur þrjá saman á einni till. Stj. hefir mikilvöld, en ekki má hún ímynda sér, að hún hafi þau völd, að hún geti ráðið því, hverjir flytji brtt. við frv. hennar. Að öðru leyti var hæstv. forsrh. með harmavæl yfir einhverju samkomulagi, sem ekki hefði verið borið undir Framsókn, og verð ég að segja, að þetta finnst mér helzt til mikil viðkvæmni.

Þetta var nú mergurinn málsins í hugleiðingum hæstv. ráðh. Hann sér ekkert annað en óheilindi í þessari till. um að láta kosningar fara fram 1932, hann sér ekki þessa 10 þús. nýju kjósendur, sem mundu eiga rétt á að kjósa á næsta ári, hann sér ekki þá reglu, sem þingið hefir haft, þegar það hefir aukið kjósendahópinn, að láta fara fram kosningar samstundis, til þess að sýna fullt réttlæti.

Hæstv. ráðh. þykist þekkja þm. að svo miklum rangindum, að þeir muni á þinginu 1932 fella stjórnarskrárbreytingarnar, fyrir það eitt, að þá eiga nokkuð mörg þúsund nýir kjósendur að fá að neyta kosningarréttar. Ég álít þm. yfirleitt ekki svo rangláta. Það getur vel verið, að menn verði Þeirrar skoðunar þá, að þeir vilji fella frv., en ekki af þessari ástæðu, sem hæstv. ráðh. nefndi.

Hæstv. ráðh. sagði réttilega, að Framsókn hefði borið fram rýmkun kosningarréttarins til fulls sigurs 1929. Hæstv. stj. bar það fram. En það var af þeirri ástæðu, sem hv. frsm. minntist á, að það var kominn fram svo sterk krafa um þetta, að ekki varð móti henni staðið; en það var ekki fyrir baráttu Framsóknarflokksins. Hann hefir að vísu heiður af því að bera málið fram, en það er Alþýðuflokkurinn, sem hefir skapað hreyfinguna, þó að bæði Íhöldin komi nú og vilji eigna sér framgang þessa máls.

Þá sagði hæstv. ráðh. um sveitarskuldir og svipting kosningarréttar vegna þeirra, að það væri gamalt deilumál, og þess vegna hefði hann ekki viljað koma fram með það. En kosningarréttur sömu manna til bæja- og sveitarstjórna var einmitt líka gamalt deilumál, en það var þó samþykkt 1929. Árið áður höfðu hans eigin flokksmenn fellt till. um að veita 21 árs mönnum kosningarrétt. Það má ekki fæla menn frá að bera gott mál fram, að það sé deilumál.

En samt skildist mér á hæstv. ráðh., að hann sé þessu vinveittur. Ég býst þá við því sama af flokksmönnum hans og þarf þá ekki að óttast um afdrif þessarar till.

Ég vil alveg vísa því frá mér, svo að ég tali í fullri alvoru við hæstv. forsrh., að þessar till. séu ekki af fullum heilindum gerðar af minni hálfu. Mér finnst, að ég hafi fært svo sterk rök fyrir þeim, að þeim verði ekki hnekkt, enda hefir enginn gert tilraun til þess.