19.02.1931
Efri deild: 4. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í C-deild Alþingistíðinda. (983)

15. mál, vegalög

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Eins og grg. þessa frv. ber með sér, vantar aðeins herzlumuninn á, að bílfær leið sé frá Vestur- og Norðurlandi til Múlasýslna. Ég tel engum vafa undirorpið, að ef kreppa sú, sem nú steðjar að, stendur ekki því lengur, muni innan skamms tíma verða lagt út í þann kostnað, að tengja Austurland við Norður- og Vesturland með bílasamgöngum. Ég tel þá sjálfsagt, að þessi vegarspotti verði tekinn í þjóðvegatölu.

Ég lít svo á, að sérstaklega sé um einn veg að ræða, sem eins stendur á um, og það er samgönguleiðin milli Borgarfjarðarhéraðs og Reykjavíkur; og þá mun Kjalarnes- og Kjósarvegurinn verða liður í þeirri leið. Og þess vegna tel ég af sömu ástæðum rétt, að niður falli skylda hreppanna til að leggja framlag móti framlagi ríkissjóðs.

Ég óska þess, að málinu verði, að lokinni umr., vísað til samgmn.