21.02.1931
Efri deild: 6. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í C-deild Alþingistíðinda. (986)

17. mál, brúargerðir

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég geri ekki ráð fyrir, að ágreiningur verði um það, að rétt sé að setja nú brúarlög, eða koma með nýtt plan yfir, hvað gera skuli á næstu árum í þessu efni. En um hitt getur frekar orðið ágreiningur, hvaða brýr eigi að taka fyrir að byggja og í hvaða röð. Ég hefi haldið mér við till. vegamálastjóra í þessu efni, enda hefir hann samið frv. og hina mjög svo rækilegu grg., sem því fylgir. Ég læt mér því nægja að vísa til hennar og sé ekki ástæðu til að fara að ræða málið nú, en leyfi mér að leggja til, að frv. verði vísað til hv. samgmn. að umr. lokinni.