23.03.1931
Efri deild: 31. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í C-deild Alþingistíðinda. (990)

17. mál, brúargerðir

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég vil þakka hv. nefnd fyrir það, hvernig hún hefir tekið í þetta mál, þar sem hún er einhuga um að setja ný brúarlög, og hefir fallizt á, að frv. verði samþ. óbreytt við þessa umr. að minnsta kosti.

Ég skal geta þess út af orðum hv. 1. landsk., að það mun ekki vera af neinni tilviljun hjá vegamálastjóra, að ekki eru nefndar tvær brýr á Andakílsá í frv. Það er tilætlun hans, að vegurinn verði lagður inn með Hvalfirði, fram með Hafnarfjalli, um Hafnarskóg og verður þá brú á Hvítá hjá Ausu. Auðvitað gæti komið til mála að brúa ána uppi hjá Skorradalsvatni, en þá munu ekki verða 5 km. á milli brunna, og er það óvanalegt, að á sé brúuð með svo stuttu millibili.

Viðvíkjandi því, sem hv. 1. landsk. sagði um veginn norður í land um Kjalveg, verð ég að segja það, að ég er honum sammála um nauðsyn þess, að brúa vatnsföllin á Kjalvegi. Og ég skal geta þess, að óskir hafa komið úr Árnessýslu um að brúa Hvítá uppi á Öræfum, en ég hygg, að Árnesingar hugsi sér, að hafa brúna neðar en hv. 1. landsk. vill vera láta. Væri því sjálfsagt að heyra álit héraðsbúa, áður en ákveðið væri, hvar brúin skuli standa. Er það ekki ofmælt hjá hv. 1. landsk., að komast mætti á auðveldan hátt meginið af leiðinni norður, ef þessi brú væri byggð. Hefi ég farið þessa leið sjálfur og álit ég, að lítið þyrfti að gera við veginn alla leið norður í Mælifellsdal, en þar þyrfti aftur á móti að gera talsverðar endurbætur.