27.03.1931
Efri deild: 35. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í C-deild Alþingistíðinda. (995)

17. mál, brúargerðir

Frsm. (Jón Jónsson):

Út af aths., sem fram komu við 2. umr., hefir samgmn. borið sig saman við vegamálastjóra um frv. Hann tók fram, að sú stefna hefði ráðið við samningu frv., að taka ekki upp í það aðrar brýr en þær, þar sem brúarstæði væri fullrannsakað. Því hefði hann ekki talið rétt að taka inn í það brú á Grjótá á Öxnadalsheiði, þótt hann teldi sjálfsagt að þar yrði byggð brú, áður en langt um liður. En nú væri þar timburbrú, og fullkomin brú kæmi ekki að fullum notum, fyrr en vegur væri lagður að brúarstæðinu. Kvaðst hann síðar mundi leggja fyrir breytingar á brúarlögunum, er gengju í þessa att.

Þá var einnig talað um bruna á Andakílsá hjá Grund. Vegamálastjóri taldi, að sú brúargerð væri ekki svo mjög aðkallandi. Hann kvaðst telja víst, að framtíðarþjóðvegurinn yrði fyrir utan Hafnarfjall, með afleggjara til Akraness, og þyrfti þá brú á Andakílsá á móts við Ausu. Hinsvegar væri svo stutt milli þessara tveggja brúarstæða, að eigi væri ástæða til að hafa fullkomnar brýr á báðum stöðum, en þó gæti komið til mála að byggja ódýra timburbrú hjá Grund. — Vegamálastjóri lagði á móti brúm á fjallvegum, eins og stendur, en bjóst þó við, að vegur gæti orðið lagður yfir Kjalveg innan langs tíma. Hann lofaði einnig, að rannsókn skyldi fram fara á nauðsynlegustu brúarstæðum, svo fljótt sem unnt er. Nefndin leggur því til, að frv. verði samþ. óbreytt og telur þjóð og þing hafa nægilegt verkefni í því til að byrja með, því að ávallt er hægt að bæta nýjum brúm inn í lögin.