17.07.1931
Neðri deild: 3. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (10)

1. mál, fjárlög 1932

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Þær umr., sem hér hafa farið fram, hafa mjög snúizt að því að vera átök milli þeirra hv. þdm., sem telja sig fulltrúa verkamanna annarsvegar og atvinnurekendanna hinsvegar. Fulltrúar verkamanna halda því fram, að kauplækkun megi ekki koma til greina, og flokksbræður þeirra úti um land gera sig líklega til að krefjast hins gagnstæða, nefnilega kauphækkunar, víða þar sem þeir geta beitt sínum áhrifum.

Hinsvegar hefir hv. þm. Vestm. haldið því fram fyrir hönd útgerðarmanna, sem hann álítur styrkustu stoðir þjóðfélagsins, að þeir geti ekki staðið undir þeim böggum, sem þeir hafa nú að bera, hvað þá heldur, ef kauphækkun kemur enn til sögunnar. Það er nú svo með þetta, að báðir hafa nokkuð til síns máls, og ég álít, að þetta verði að athuga frá báðum hliðum. Framsóknarflokkurinn er ekki stéttarflokkur og mun því gera það eftir megni og leitast við að finna heppilega úrlausn þessa vandræðamáls.

Hv. 3. þm. Reykv. kom með fyrirspurn viðvíkjandi bók, sem hann kallaði „Verkin tala“, og sem hann sagði, að búið væri að senda út. Þessi bók er ekkert annað en skýrsla um nokkrar helztu framkvæmdir á síðustu árum, sem hefir verið send út um sveitirnar og nú er verið að útbýta í bæjunum.

Hv. þm. spurði, með hvaða heimild rit þetta hefði verið gefið út, en það er eins sjálfsagt og réttmætt, að atvmrn. gefi út yfirlit yfir framkvæmdirnar, eins og það, að gefin hafa verið út rit um síma og vita.

Þá fann hv. þm. að því, að ekki hefði verið gefið neitt yfirlit yfir afkomuna fyrstu sex mánuði ársins, en þar er því að svara, að það er alls ekki hægt. Okkar stjórnarmaskína, ef ég má svo segja, gengur ekki hraðar en það. Slíkt yfirlit yfir nokkuð af árinu gæti líka verið mjög villandi og gefið ranga hugmynd um afkomuna, þar sem nú er ekkert selt af þessa árs framleiðslu. Annars fær fjvn. aðgang að öllum þeim gögnum, sem fyrir liggja, og gefst þar með þingmönnum kostur á að kynnast ástandinu.