18.08.1931
Efri deild: 32. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 960 í B-deild Alþingistíðinda. (1001)

120. mál, fiskimat

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Eins og drepið er á í nál., er frv. þetta samið af n., sem atvmrn. skipaði 1929. Eru í frv. þessu gerðar nokkrar breyt. á lögum, sem hafa gilt um þetta efni. Aðalbreyt. er sú, að ríkisstj. sé heimilt að greiða kostnað við rannsóknir á nýjum verkunaraðferðum á fiski, og rannsóknir á salti, sem yfirfiskimatsmenn leggja til, og er þetta bundið þeim skilyrðum, að ráðuneytið samþykki.

Það er kunnugt, að sumir yfirfiskimatsmenn hafa viljað gera slíkar rannsóknir og borið af því kostnaðinn, en tilraunirnar reynzt vel í því umdæmi. Hinsvegar er og kunnugt, að salt hefir verið flutt inn, sem var svo slæmt, að það gerði fiskinn að lélegri vöru. Þetta hefir lítið verið rannsakað hingað til. En það hefir mikið að segja í framtíðinni, þegar fiskurinn er, ef til vill, að falla, að þá sé ekki notað salt, sem spillir vörunni. Ég verð að líta svo á, að þetta frv. sé nauðsynlegt, og leit n. einnig svo á, að það væri til mikilla bóta. Þó að gera hefði mátt víðtækari breyt., þá telur n. ekki ástæðu til að koma fram með brtt. Þó skal ég játa, að betur hefði mátt gera. Ég leyfi mér samt að vænta þess, að hv. d. sýni frv. velvild og leyfi því að ganga hindranalaust gegnum þingið.