18.08.1931
Efri deild: 32. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (1050)

104. mál, notkun bifreiða

Frsm. (Magnús Torfason):

Ég vil benda á það, að í 1. gr. þessa frv. liggur engin þvingun. Menn, sem eiga bifreið, þar sem mjóir vegir eru, þeir geta keypt sér mjóa bifreið og hagað sér þannig eftir vegunum. Hitt sé ég ekki að sé rétt, að stjórnarráðið veiti undanþágu. Ég bar það undir annan kunnáttumanninn, sem ég leitaði til, og hann sagði, að það væri að vísu hægt, en meðan það væri aðeins undanþága, þá væri aldrei hægt að fá verulegt af varahlutum til þeirra bifreiða, eða a. m. k. miklu verra en ef það væri látið alveg frjálst.