29.07.1931
Neðri deild: 15. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í D-deild Alþingistíðinda. (1051)

117. mál, skipasmíðastöð í Reykjavík

Flm. (Einar Arnórsson):

Ég get haft stutta framsöguræðu fyrir þessari till. Flest það, sem máli skiptir henni viðvíkjandi, er sett fram í grg. þeirri, er fylgir henni. Ég ætla aðeins að geta um fáein atriði, og verður það þó að einhverju leyti endurtekning á grg.

Samkv. opinberum skýrslum er eimskipafloti Íslendinga á yfirstandandi ári 98 skip, og þar við bætist mótorbátaflotinn. Mér er sagt, að þær skipaviðgerðarstöðvar, sem hér eru, geti aðeins tekið lítinn hluta þessara skipa á land upp. Viðgerðarstöðvar hér munu ekki geta gert við skip, sem eru meira en 80–100 tonn að stærð. Afleiðingin af þessu er sú, að spjöll á stærri skipum verða yfirleitt ekki bætt hér; þau verða að leita til skipakvía erlendis. Skip, sem eru stærri en 80–100 tonn, verður ekki gert við hér, nema til bráðabirgða, ef þau verða fyrir skemmdum t. d. á kili eða stafni. Þau verða að fara til útlanda til fullnaðarviðgerðar. Þetta hefir í för með sér mikinn kostnað og erfiðleika, og er auk þess stórkostlegt tímatap. Mönnum er kunnugt, að slíkar viðgerðir eru ekki gefnar, og verða þeir reikningar einatt háir, ef um miklar skemmdir er að ræða. Ég ætla að taka eitt dæmi. Fyrir skömmu hefir eitt af varðskipunum tekið niðri á skeri, sem ekki var merkt á sjókortunum, og skemmdi bæði kjöl og stefni. Ekki er hægt að gera við þetta hér, og verður skipið að fara til útlanda, líklega Danmerkur, til þess að fá þessi spjöll bætt. Þessi ferð getur tekið skipið 1 til 2 mánuði, og er auðsær hlutur, hvað það er bagalegt. Ágóði af efnissölu og vinnulaun renna í vasa erlendra manna. Auk þess verður skipið óþarflega lengi frá verki, miðað við það, ef hægt væri að framkvæma viðgerðina hér heima.

Það er eiginlega óviðunandi ástand, meðan ekki er hægt að taka öll skip, sem Íslendingar eiga, upp hér. Ekki er heldur hægt að gera á þeim viðunandi rannsóknir á floti; til þess þarf að draga þau á land, eftir því sem siglingafróðir menn hafa sagt mér.

Ég geri ráð fyrir, að hv. d. amist ekki við þessari till., því að þar er ekki farið fram á annað en bráðnauðsynlegt verk, sem ætti að vera komið í kring fyrir löngu.

Það ber nauðsyn til þess að rannsaka þetta mál sem fyrst. Bæði að athuga um stað fyrir stöðina og kostnað við byggingu hennar og rekstur.

Ég tel heppilegt, að þeir menn, sem þessi rannsókn verður falin, verði kosnir á þann hátt, er stungið er upp á í till. Þar er stj. látin skipa 1 mann, enda er ríkið nú orðið talsverður skipaeigandi, Félag íslenzkra botnvörpuskipaeigenda einn, og bæjarstjórn Rvíkur einn, því að þessi stöð kæmi til með að snerta Rvík allverulega og yrði að öllum líkindum byggð í Reykjavíkurlandi. — Að svo mæltu ætla ég ekki að fara fleiri orðum um till. í þetta sinn.