17.08.1931
Efri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

134. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Jónas Jónsson:

Það er rétt hjá hv. 1. landsk., að ég hafði ekki heyrt úr ræðu hans skýringuna á aðstöðu hans í sambandi við gengismálið 1925–26, en það skiptir ekki máli í þessu sambandi, af því að hefði krónan verið fest t. d. 1924. áður en hún var látin hækka, þá hefði fyrr komizt á hið „normala“ ástand. Hvarvetna var mikil áhætta að taka ríkislán á lausgengisárunum, ef verð krónunnar breyttist. Áhættan fyrir ríkið (eða lántakandann) fór eftir því, hvort krónan hækkaði eða lækkaði, þar sem hún átti eftir góðan fimmta part árið 1926 til þess að hún næði því takmarki, sem mun a. m. k. hafa vakað fyrir hv. 1. landsk. Þetta lán 1926 var því í mesta máta áhættusamt fyrir báða aðila. Það eitt að krónan hefir enn sem komið er haldizt föst, hefir gert það að verkum, að áhættan er ekki sýnileg í öðru en álitinu út á við. Annars er það öllum ljóst, að þar sem hér er lausgengi ennþá á þann hátt, að við höfum ekki fastviðurkennda krónu, þá er þessi hætta enn fullkomlega til staðar. Og ég verð að álíta, að sá mótþrói gegn verðfesting gjaldeyrisins, sem kom fram frá tveim flokkum þingsins, hafi verið aðalorsök þess, að ekki hefir gengið betur en þetta að koma skipulagi á þennan veðdeildarmarkað, og fyrir þá sök stafar mikil hætta fyrir ríkið af því, að krónan skuli ekki vera verðfest.