17.08.1931
Efri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (1108)

134. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Frsm. (Jón Þorláksson):

Það er auðvitað alger misskilningur hjá hv. 5. landsk., að það hafi verið aðalnauðsynin fyrir þessari lántöku 1926, að íslenzka krónan var ekki verðfest. Það sem gerði það ómögulegt að gefa út tvímyntaðar „obligationir“, var það að hinar myntirnar voru einnig óverðfestar. Það er vel gerandi að gefa út tvímyntaðar „obligationir“ og þær geta verið útgengilegar, þótt íslenzka krónan sé ekki verðfest, aðeins ef komið er fullt traust á hina erlendu mynt, sem skuldabréfið er í. En það þýðir ekki heldur að bjóða skuldabréf í dönskum krónum, meðan heimurinn veit ekki, hvort danska krónan stendur stöðug. Ekki hefði það gert neina breyt. á þessu, þótt krónan hefði verið stýfð í gjaldverði eða neðan við það 1924, sem enginn vildi gera þá. Það var þetta, sem ég var að gera grein fyrir og hv. 5. landsk. heyrði ekki, að það hjálpar ekki gefa út tvímyntuð skuldabréf, þegar svo stendur á, að menn geta hvorugri myntinni treyst. Því var ekki um annað að velja en annaðhvort að láta það ástand, sem var, haldast, eða gera þær ráðstafanir, sem gerðar voru árið 1926–27. Og þessar ráðstafanir verkuðu þannig, að bæði var nóg atvinna í landinu og menn komust upp á að nota sér þann tíma til hagsbóta, sem annars hefði orðið að miklu leyti ónýtur. Og ég verð að segja það, að þótt þetta hafi aukið skuldabyrði landsins út á við, þá hefir þetta mál vissulega margar aðrar hliðar, og það er ekki hægt að lýs því með einu orði, að þessar ráðstafanir hafi skaðað landið, jafnvel þótt lánið frá 1930 hafi orðið eitthvað minna en annars hefði verið hægt að fá, af því að þessar skuldbindingar voru þá fyrir. Á hitt verður að líta, að þessar ráðstafanir gerðu það mögulegt að nota vinnukraftinn í landinu á þessum árum til að vinna að margþættum framförum.