20.07.1931
Efri deild: 5. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í D-deild Alþingistíðinda. (1117)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Jakob Möller:

Ég fellst fullkomlega á það, að þetta mál eigi að athuga rólega. En af því að hæstv. forsrh. hefir komizt að þessari niðurstöðu við rólega athugun, vil ég benda honum á, að það er hann, sem hefir valdið því, að mái þetta komst út úr rólegri athugun, og hefir því ekki verið athugað sem skyldi, því þegar farið er fram á það á þingi, að mái þetta sé tekið til athugunar, rýfur hæstv. forsrh. þingið þess vegna. Það er því hæstv. forsrh. og hans flokkur einn, sem ber ábyrgð á öllum þeir óróa, sem af þessu hefir sprottið. Þetta játar nú hæstv. stj. með því að bera fram þessa till., því það var fásinna þegar hæstv. stj. hélt því fram á síðastl. vori, að þá hefði átt að skella breytingu á kjördæmaskipuninni á þjóðina óvara. Því hefði stjskr.breytingin verið samþ., kom málið aftur fyrir næsta þing og mátti láta n. starfa milli þeirra þinga. Þetta var róleg yfirvegun málsins. Og ef kjördæmaskipunin á að vera réttlát, þarf að breyta stjskr.

Hæstv. stj. fær nú tækifæri til þess að sýna, hvort hún vill framgang þessa máls, því nú er fram komið frv. um breyt. á stjskr. Milli þeirra þinga, sem þurfa að samþ. það, má svo athuga þetta mál. En ef hæstv. stj. meinar það eitt með þessari till. að fá frið, skal ég segja henni það, að hún fær aldrei frið fyrr en þetta mál hefir verið farsællega til lykta leitt. (JónasJ: Er þetta hótun?). Ég á við það, að það liði aldrei langur tími svo, að meiri hl. kjósenda sætti sig við það, að minni hl. beiti hann ofbeldi. Enda þótt hv. þm. sé vanur að beita ofbeldi, fella kjósendur sig ekki til lengdar við það. Hv. þm. er svo sögufróður maður, að hann veit, að þetta er rétt. Þetta hefir margsinnis komið í ljós erlendis, og ég trúi því ekki, að Íslendingar verði hér neinir eftirbátar annara þjóða og uni þessu lengi. Framsóknarfl. er þetta líka ljóst. Og ég býst við, að hæstv. forsrh. hafi við rólega athugun þessa máls komizt að því, að ekki sé hægt að leysa þetta mál með ofbeldi.

Ég vil beina því til væntanlegrar n., að mér finnst nú tímabært, að tekið sé til athugunar, hverjar breytingar sé nauðsynlegt að gera á lögunum um landsdóm, svo þau nái tilgangi sínum. Þessi mál eru svo skyld, að ég tel tímabært, að þau séu tekin saman til athugunar.