20.07.1931
Efri deild: 5. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í D-deild Alþingistíðinda. (1125)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Jakob Möller:

Hæstv. forsrh. sagði, að grundvöllurinn undir fullyrðingum mínum væri mjög vafasamur, þar sem ég hefði gengið út frá því í útreikningi mínum, að allir kjósendur, sem kusu andstæðinga Framsóknarflokksins við síðustu kosningar, hafi verið andstæðir flokknum í kjördæmaskipunarmálinu. Ég hefi aðeins gengið út frá því, sem og er rétt, að allir kjósendur Sjálfstæðisflokksins vildu tryggja rétt hans til þingsæta. Annað hefi ég ekki sagt. Hæstv. forsrh. talaði um einhverja vissa kjördæmaskipun, sem Sjálfstæðisflokkurinn héldi fram. Hæstv. ráðh. hyggir þar aðeins á sögusögn, gripinni úr lausu lofti, samskonar og hann byggði á, er hann hleypti upp þinginu í vetur. Við sjálfstæðismenn höfum aldrei haldið fram neinni vissri kjördæmaskipun. Við höfum aðeins haldið því fram, að hver flokkur ætti að fá þingsæti í samræmi við atkvæðatölu. Það er stefna okkar í málinu.

Hæstv. forsrh. vill draga ýms af atkv. sjálfstæðismanna frá, þar sem ýmsir frambjóðendur þeirra hafi ekki fylgt flokknum í kjördæmamálinu. Ég vil henda hæstv. ráðh. á, að með meira rétti mætti draga ýms atkv. frá Framsóknarflokknum. Ýmsir af frambjóðendum flokksins, svo sem hv. þm. V.-Ísf., hv. 1. þm. Eyf. o. m. fl., létu það skína í gegn í kosningunum, að þeir hölluðust að stefnu okkar sjálfstæðismanna í málinu. Er því enginn efi á því, að Framsókn hefir fengið mörg atkv. með þessu móti. Rök hæstv. forsrh. í málinu snúast því öll á móti honum, sem eðlilegt er, þar sem hann byggir á röngum forsendum. Reyndar er það rétt hjá hæstv. ráðh., að frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Dalasýslu hafði sérstöðu í málinu, þar sem hann hélt fram einmenningskjördæmum með uppbótarþingsætum, en þó þannig, að þingsæti hvers flokks væru í samræmi við atkvæðatölu hans. Sama máli gegnir um frambjóðendurna í Árnes- og Rangárvallasýslum. Hitt er rangt hjá hæstv. ráðh., að ég hafi talið með atkv. Eiríks Einarssonar. Ég taldi aðeins atkv. Lúðvíks Nordals. Ég taldi auðvitað ekki heldur atkvæði Gunnars Sigurðssonar með, heldur meðaltal þeirra atkv., er frambjóðendur Sjálfstæðisfl. fengu í Rangárvallasýslu. Ég þarf svo ekki að svara þessu meiru. Öll röksemdafærsla hæstv. ráðh. hefir gersamlega fallið um sjálfa sig.

Hæstv. forsrh. talaði um það, að sú þjóð, sem lengst hefði haft hjá sér þingræði, hefði ekki það fyrirkomulag, sem við sjálfstæðismenn viljum koma á. hæstv. ráðh. þar vafalaust við Englendinga. Varð ég hálfhissa, er ég heyrði þessi ummæli af munni hæstv. ráðh., því ekki hafði ég búizt við því, að foringi Framsóknarflokksins vildi feta í fötspor þeirrar þjóðar, sem kunn er að því að vera allra þjóða íhaldssömust. En Bretar hafa þó sýnt það, að þeir vilja enga kúgun þola í þessum efnum, t. d. þá er þeir tóku völdin af efri málstofunni, þar sem hún var eigi skipuð eftir þingræðisreglum. Enda hefir það aldrei komið fyrir í Englandi, að minnihlutaflokkur hafi ráðið lögum og lofum. Ef það kæmi fyrir, að flokkur með aðeins 1/3 kjósenda að baki sér kæmist í meiri hl., þá myndu Englendingar ekki una því ástandi stundinni lengur.

Hv. 5. landsk. hefi ég sáralitlu að svara. Ég skemmti mér prýðilega undir ræðu hans, eins og ég hefi svo oft gert áður. Það var t. d. nógu skemmtilegt að heyra hann tala um ofbeldisverk sjálfstæðismanna. Eina dæmið, sem hann tók, var það, að ég hefði hindrað það, að ofbeldi væri framið. Hitt gat hann aldrei sýnt fram á, sem ekki var von, að sjálfstæðismenn hefðu nokkurn tíma beitt ofbeldi. Og ég hindraði raunar aldrei neitt ofbeldi. Ég kom aðeins í veg fyrir, að heimsókn væri gerð til viss manns í bænum. En þótt það hefði ekki verið, þá geri ég fastlega ráð fyrir, að ekkert ofbeldi hefði samt verið framið.

Þá sagði hv. 5. landsk., að ég þyrfti ekki að undrast, þó að þessi þáltill. kæmi fram, þar sem stj. hefði á síðasta þingi horið fram stjórnarskrárbreytingu, sem m. a. hefði farið fram á breytta skipun þingsins, nefnil. þá, að landskjörið væri fellt niður. Ég hefði alls ekki orðið hissa á því, þó að hæstv. stj. hefði borið fram slíka till., því að hún er einmitt í kúgunaranda hæstv. stj., þeim, að svipta andstöðuflokkana þingsætum. En hina till. undraðist ég aftur á móti, því að þar er a. m. k. látið líta svo út, sem stefnt sé í áttina til réttlætis.

Hv. 5. landsk. getur bersýnilega ekki gert sér grein fyrir því, hvað lýðræðiskröfur séu. Hann slær saman í eitt kröfum kommúnista og lýðræðismanna. Ef meiri hl. þjóðarinnar krefst sjálfsagðra réttarbóta, þá á það, að vera sama og að örlítill flokkur heimti öll völdin í sínar hendur og vilji kollsteypa þjóðskipulaginu. Annars treysti ég mér ekki til þess að fara að leiðrétta allan hugsanagrautinn, rakaleysuna og rökblindnina hjá hv. 5. landsk. Það verða aðrir að gera.

Hv. þm. spurði, hvað við sjálfstæðismenn gerðum, er kommúnistar heimtuðu, að eignum manna væri skipt upp. Hv. þm. hélt, að þetta væri afaróþægileg spurning. En það er þvert á móti. Ég hefi því einu að svara, að komist kommúnistar í meiri hl., þá verðum við að hlíta því, að eignunum verði skipt upp. Það er ofureinfalt mál. En séu þeir ekki í meiri hl., þá ganga breytingarnar ekki fram — a. m. k. ekki á þingræðislegan hátt.

hv. þm. er alltaf að grauta í kommúnisma, kemur auðvitað af því, að hann stendur nær kommúnistum heldur en lýðræðismönnum, og ruglar svo öllu saman.

Ég tek vel öllum bendingum um það, að okkur sjálfstæðismönnum muni ganga illa, ef gengið væri til kosninga. Og ég bið hv. andstæðinga þess í lengstu lög að láta ekki það atriði fæla sig frá því að samþ. þær breytingar, sem við förum fram á.