08.08.1931
Efri deild: 24. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (1149)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Bjarni Snæbjörnsson [óyfirl.]:

Ég vil ekki láta hjá líða að geta afstöðu minnar til brtt. Mér finnst, að það, sem þar kemur til greina, sé ekki tekið fram í nál., og hefði mátt ætlast til, að það hefði fengið betri undirtektir hjá Framsókn en raun ber vitni um. Eftir því, sem fram hefir komið við umr. og fram haldið af Framsóknarflokknum, að þetta mál þurfi svo margbreytilegs undirbúnings, þá get ég ekki skilið, að svo sé, þar sem séð er fram á, að till. sjálfstæðismanna getur orðið grundvöllurinn undir starfi mþn. Við fyrri hluta umr. var það aðallega hæstv. forsrh., sem talaði um, að málið þyrfti svo langan undirbúning. En eftir því, sem mér hefir skilizt seinna, þá hafði hann misskilið, hvað flokkarnir vildu fara fram á. Hæstv. forsrh. talaði um, að flokkarnir hefðu komið sér saman um að taka þm. frá hinum einstöku kjördæmum. Þetta var auðvitað sett á oddinn fyrir kosningarnar og þá sagt, að frambjóðendur Sjálfstæðismanna hefðu ekki komið sér saman um þetta. Þáverandi hv. þm. Dal. var tekinn t. d. og sagt, að hann hefði verið með einmenniskjördæmum, en hinir yfirleitt með stórum kjördæmum. Ég var frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, og ég hafði ekki hugmynd um, hvernig þetta ætti að vera, að öðru leyti en því, að flokkurinn vildi hafa kosningarréttinn sem réttlátastan og að hver flokkur ætti þm. í hlutfalli við kjósendur. Þetta áleit ég liggja svo augljóst fyrir, að það gæti ekki orðið misskilið, nema það yrði þá ósjálfrátt í kosningahitanum. En nú er sá þröskuldur fallinn úr vegi.

Mér fannst koma fram við fyrri hl. umr. og í nál., og sérstaklega eftir að frsm. hafði haldið sína tölu, að málið þyrfti svo langan undirbúning, að það yrði ekki hægt að lúka störfum mþn. fyrir næsta þing. Ég vona, að það þurfi ekki að knýja Framsóknarflokkinn áfram með illu í þessu máli, heldur með góðu, og að hann sjái, að þetta er ekki annað en réttlætiskrafa.

Svo er það, sem sjálfstæðismenn fóru fram á, að þm. talan væri í hlutfalli við kjósendafjöldann. Það getur ekki orðið, nema að láta höfðatöluna ráða. Þar sem hæstv. forsrh. talaði um, að ýmislegt annað kæmi til greina, þá get ég ekki skilið, hvað það gæti eiginlega verið. Ekki er hægt að fara eftir auðæfum eða vitsmunum, og því síður eftir því, hvar menn búa, og það er lítt skiljanlegt, að þeir, sem eru afskekktastir, eigi að hafa betri aðstöðu til að ráða stjórn landsins. Þess vegna álít ég, að þessi hluti till. sé sjálfsagður til samþykktar, því að í henni felst aðeins réttlæti, sem ég vona, að öllum sé ljóst, að eigi að hafa framgang, og frekari íhugun er ekki til annars en draga málið á langinn. Málið er fyrirfram íhugað, og hitt byggt á misskilningi við kosningarnar, og ætti nú að vera komið í lag aftur. — Þá vil ég víkja nokkrum urðum að því, sem hv. 2. landsk. sagði.

Hv. 2. landsk. sagði, að engu máli skipti, hvernig n. væri skipuð. En þá er mér óskiljanlegt, hvers vegna sami hv. þm. ber fram brtt. einmitt um það atriði. Þetta mun því frekar sagt í „agitations“augnamiði, eins og margt annað, sem hv. þm. segir hér í þessari hv. d., en að hann í raun og veru meini slíkt. Hv. 2. landsk. talaði líka um mál, sem mér kemur talsvert við. Hann sagði, að sjálfstæðismenn hefðu gefið stj. 2¼ millj. kr. til þess að valta og skalta með, án þess að fá nokkur veruleg fríðindi í staðinn, og taldi hann, að eitthvað mundi búa undir þessu. Ég gerði ekki sérstaklega grein fyrir atkv. mínu við afgreiðslu verðtollsins, og ætla ég því að skýra afstöðu mína nú. Hv. 2. landsk. hefir talað hér mikið um atvinnubætur. Ég er honum sammála um það, að einhverjar atvinnubætur þurfi að koma til. En ef þær eiga að komast í framkvæmd, þurfum við peninga. Og ég greiddi atkv. með framlengingu á verðtollinum af því að ég álít hann hentugri en ýmsar aðrar álögur, og af því að ég ætlaðist til, að miklu af því fé, sem þannig fengist inn, yrði varið til verklegra framkvæmda. En leið þá, sem jafnaðarmenn — og ef til vill einhver hluti Framsóknarflokksins — vill fara, get ég eða sá flokkur, sem ég tilheyri, ekki gengið inn á með nokkru móti.

Ég gat ekki að því gert, að mér þótti fremur kátleg sú yfirlýsing hv. frsm., að þeir framsóknarmenn vildu sem minnst um málið tala. Þó er þetta raunar eðlilegt. Sá flokkur er alltaf að sjá það betur og betur, eftir því sem tímar líða fram, hve sjálfsagt er fyrir þá að fylgja réttlætiskröfum um breytingar á kjördæmaskipuninni. En þeim þykir bara of snemmt að láta sig strax, heldur ætla þeir sýnilega að undirbúa kjósendur með Tímanum. Þá fyrst, þegar búið er að sannfæra bændurna um nauðsyn, snúningsins, vill Framsókn fara að tala um þetta mál.