08.08.1931
Efri deild: 24. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í D-deild Alþingistíðinda. (1153)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Jón Baldvinsson:

Ég ætla að svara hv. þm. Hafnf. nokkrum orðum. Hann beindi til mín fyrirspurn þess efnis, hvers vegna ég bæri fram brtt. við þessa þáltill., ef sama væri, hvernig n. yrði skipuð. En ég er á því, að hann hafi hirt hismið úr till. minni, en skilið eftir kjarnann. Hann hefir einblínt á skipun n., en ég lagði áherzluna á það, að sem beztur grundvöllur væri lagður undir starfsemi n. Ég bar fram mína brtt. sökum efnis till., en ekki formsins.

Þá fór hv. þm. að afsaka það, að sjálfstæðismenn slepptu verðtollinum úr Ed. Sagðist hann vera hlynntur atvinnubótum og virtist ætlast til þess, að stj. notaði mikið af því fé, sem hún fengi inn með verðtollinum, til þess að bæta úr atvinnuleysinu. En það kemur varla til, að féð verði notað í því skyni. Líklegast verður það bara notað til beins rekstrar ríkisins. Nei, það þyrfti vafalaust að taka lán eða fá alveg sérstakar tekjur til þess að hæstv. stj. færi að hugsa um atvinnubætur, sbr. afgreiðslu fjárl. úr Nd.

En það var annað, sem máli skipti þarna. Hefði stj. ekki fengið verðtollinn, neyddist hún út í nýjar kosningar í haust. (Forsrh.: Það hefði ekki verið neitt neyðarúrræði). Þótt hæstv. fosrh. sé vongóður, þá geta nú miklar breytingar orðið á skömmum tíma, og má minna á það, að engin ósköp standa lengi. — Það styrkir líka það, sem ég hefi sagt í þessu máli, að hæstv. forsrh. lýsti því yfir áðan, að Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn hefðu komið sér saman um að taka ekki til umræðu efnishliðar till. á þessu þingi. En það sýnir einmitt, að þessir þingflokkar hugsa aðeins um formið, en ekki um virkilega úrlausn málsina. Hv. 1. landsk. mótmælti ekki þessu samkomulagi milli Framsóknar og Sjálfstæðis, enda var það erfitt, eftir yfirlýsingar þær, er fram hafa komið í ræðum þeirra í dag.

Þá var það hv. 2. þm. Árn. Hann sagði nokkur spaugsyrði í minn garð og vildi halda því fram, að framsóknarmenn væru slyngir í samningum, og vildi ekki heyra, að sjálfstæðismenn stæðu þeim framar í þeim efnum. Ég sagði aldrei, að ég áliti sjálfstæðismenn slyngari samningamenn, heldur sagðist ég ekki trúa því, að eins slyngur samningamaður og hv. 1. landsk. hefði ekki haft annað upp úr samkomulaginu en það, hvernig n. skildi skipuð í þessu máli.

Ég þykist vita, að það hafi verið ferlegur aðgangur, þegar hv. 1. landsk. og hv. 2. þm. Árn. voru að semja í nefndinni og reyna til að leika hvor á annan.

Hv. 2. þm. Árn. þótti bera á afbrýðissemi hjá mér og sagði, að Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkarnir væru komnir í svo innilega sameiningu í flatsænginni, að mér og mínum flokk muni hafa verið sparkað fram úr. En það er sannast að segja, að upp á síðkastið hefir verið meiri óværð í því fleti en orð er á gerandi í þingsalnum, og mun engum of gott að vera þar.