11.08.1931
Efri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (1160)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Mér finnst vera fyllsta ástæða út af framkomu hv. 2. landsk. að beina til hans alvarlegri fyrirspurn. Það stendur í till., að Alþýðuflokkurinn skuli tilnefna einn mann í mþn. Mér finnst vera full ástæða til að spyrja hv. 2. landsk., hvort flokkur hans ætli sér að nota þennan rétt eða ekki. Hv. þm. hefir látið það álit í ljós, að Alþýðuflokkurinn og kjördæmaskipunarmálið myndu ekkert græða á þessari nefndarskipun, heldur myndi allt sitja í sama farinu og áður. Ennfremur heldur hv. þm. því fram, að málið sé nægilega rannsakað eins og það liggur fyrir. Stafar þetta af því, að hann treysti ekki sínum málstað, ef málið er sett undir rannsókn? Þorir hv. 2. landsk. ekki að standa við hinar háu kröfur sínar í þessu máli? Ég vil spyrja hv. þm. að þessu vegna þess, að ef Alþýðuflokkurinn vill ekki tilnefna neinn til að taka sæti í nefndinni, þá gæti komið til mála að athuga skipun n. á ný og setja um hana aðrar reglur. Þess vegna vil ég mælast til þess, að hv. 2. landsk. svari því afdráttarlaust, hvort hann þorir að eiga þátt í skipun n. eða ekki.