11.08.1931
Efri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (1161)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Jakob Möller:

Ég er ekki viss um, að það sé rétt að ásaka hv. 2. landsk. um leikaraskap í þessu máli. Þessi hv. þm. er alltaf að stagast á því, að samningar hafi átt sér stað milli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar. og ég er hræddur um, að hann sé farinn að trúa þessu sjálfur. Mér skilst, að hann óttist það ákaflega mikið, að samvinna muni komast á milli þessara flokka, og að Alþýðuflokkurinn muni við það missa þá aðstöðu, sem hann hefir nú í þessari hv. d. til þess að semja við Framsóknarflokkinn og koma með því sínum hagsmunamálum fram.

Það er öllum kunnugt, að afstaða Alþýðuflokksins til þessa máls hefir breytzt að mun. Í fyrstu stóð hann með Sjálfstæðisflokknum og vildi krefjast réttlátra breytinga á kjördæmaskipuninni, en þegar bera skyldi fram frv. um það efni, þá vildi hann ekki vera með. Ennfremur vildi hann ekki eiga þátt í því, að þessi d. yrði þannig skipuð, að fylgismenn réttlátrar kjördæmaskipunar hefðu þar hin sterkustu tök, er þeir áttu kost á að hafa í þessari hv. d. Þetta sýnir nægilega, hvernig hv. jafnaðarmenn hafa snúizt. Kjördæmaskipunin er ekki lengur aðaláhugamál þeirra, heldur virðist þeim nú vera mest í mun að komast aftur að samvinnu við Framsóknarflokkinn. Þeir hafa dembt inn í þingið frv. um nýjar tekjur handa hæstv. stj. og fara í einu frv. fram á hvorki meira né minna en 11 millj. kr. í þessu skyni. Þetta er þrautatilraunin, sem Alþýðuflokkurinn gerir til þess að komast í sömu aðstöðu hjá Framsókn sem hann hafði áður.

Ég skal nú ekki vera að bregða hv. 2. landsk. þm. um leikaraskap. Ég held, að þetta gangi svo nærri honum, að það sé illa gert að vera með slíkar aðdróttanir í hans garð, því ekki get ég skilið annað en að hv. þm. hafi tekið það talsvert nærri sér að kúvenda svo í kjördæmaskipunarmálinu sem hann hefir gert.

Hv. þm. ásakaði okkur sjálfstæðismenn fyrir það, að við hefðum breytt afstöðu okkar til þessa máls. Ég þarf ekki að svara hv. þm. öðru en því, að það mun sýna sig síðar, hvort Sjálfstæðisflokkurinn hvikar frá réttlætiskröfum sínum, og þá reynir mikið á það, að Alþýðuflokkurinn sýni fulla alvöru í þessu máli. Það, sem var aðalástæðan til þess, að ekki var hægt að fá framgengt höfuðkröfum okkar um réttláta skipun þingsins að þessu sinni, voru einmitt brigðmæli Alþýðuflokksins. Hvort hann svíkur alveg í málinu, veit ég ekki, en það mun koma í ljós síðar.