11.08.1931
Efri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í D-deild Alþingistíðinda. (1162)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Jón Þorláksson:

Ég hefi litlu að bæta við það, sem ég hefi áður sagt, og þarf siður en svo að verja mig gegn þeim ásökunum frv. hv. 2. landsk., að bilbug megi á mér finna gagnvart kröfunum um endurbætur á skipun þingsins.

Á síðasta þingi átti hv. 2. landsk. frumkvæðið að þeim tilraunum, sem þá voru gerðar til þess að knýja fram endurbætur í þessu efni. Hann var þá flm. þeirrar brtt. við stjskrfrv. hæstv. stj., sem mestu máli skipti, þar sem með henni var farið fram á, að lagður væri grundvöllur undir breytta skipun þingsins. En það fer svo fjarri því, að forusta málsins á þessu þingi sé í höndum hv. 2. landsk. Hann hefir ekkert viljað í málinu gera annað en það, að bera fram brtt. við till. hæstv. stj., sem hann veit með vissu, að ekki verður samþ. á þessu þingi. Og þó að brtt. yrði samþ. á þessu þingi eða öðru, þá værum við samt ekki hænufeti nær því að fá réttláta skipun þingsins, því að kosninga- og stjskr.-löggjöfina vantaði eftir sem áður.

Sjálfstæðisflokkurinn hefir nú tekið forustuna í þessu máli og borið fram stjskrfrv. um breytingar og endurbætur á núverandi kjördæmaskipun og alþingiskosningum. Hv. 2. landsk. ber ekkert slíkt fram. Hann hefir aðeins borið fram brtt. þá, sem ég gat um áður og sem hann vissi um, að ekki gæti orðið samþ. á þessu þingi, og honum mátti því vera sama um, hvort félli hér í d. eða í Nd. Það skilur okkur og hv. jafnaðarmenn, að við sjálfstæðismenn viljum ekki láta okkur það nægja, að felld sé till. fyrir hæstv. stj. Fyrst við eigum kost á því að fá réttlátlega skipaða mþn. í málið, þá viljum við ekki slá hendinni á móti því. Þó að nefndarskipun þessi sé að vísu ekki stórvægilegt atriði, þá er hún samt spor í áttina að réttu marki. Hv. 2. landsk. er á móti því, að þetta spor sé stigið; ég er með því. Hv. þm. getur því alls ekki ásakað mig fyrir það, að ég skyldi ekki greiða atkv. með brtt. hans, og koma þannig í veg fyrir, að samkomulagstill. kæmi til atkv. Ég álít, að ég hafi gert rétt og að ég hafi greitt fyrir því, að spor verði stigið í þessu máli, sem óhjákvæmilegt er að stíga eins og málið horfir nú við.

Ég þarf ekki að tala um afstöðu hv. jafnaðarmanna á þessu þingi, þar sem hv. l. þm. Reykv. hefir gert það allrækilega. Það er auðvelt að sanna það, að afstaða þeirra er breytt. Kjördæmaskipunarmálið er ekki lengur efst á baugi hjá þeim. Þeir eru hættir að berjast fyrir því og forustan er komin í hendur Sjálfstæðisflokksins. Ég ætla þó að vona, að þeir gangi ekki svo langt í þessu athafnaleysi, að Alþýðuflokkurinn láti standa á liðveizlu sinni, þegar að því kemur, að málið verður knúð fram með þeim ráðum, sem verða til þess.

Hv. 2. landsk. er alltaf að tala um leynisamninga milli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar, og bendir á afgreiðslu verðtollsins og þetta mál því til sönnunar. Ég skal taka það fram, að öll gögn í þessu máli liggja opin í nál. stjskrn. Annað en það, sem þar er tekið fram, hefir ekki gerzt í málinu.

Hvað verðtollinn snertir, þá er hv. þm. þar í mótsögn við sjálfan sig. Hann hefir hvað eftir annað tekið það fram, að sú skattastefna, sem birtist í verðtollinum, væri stefna Sjálfstæðisflokksins. Hvernig getur hv. þm. þá látið sér detta í hug, að við sjálfstæðismenn þurfum að leita samninga við Framsókn til þess að greiða atkv. með okkar stefnumálum? Nú er það að vísu ekki að öllu leyti rétt hjá hv. þm., að verðtollurinn sé í samræmi við skattstefnu okkar, þar sem við erum á móti því, að lagður sé tollur á nauðsynjavörur, nema því aðeins, að brýn nauðsyn sé til.

Ég hefi þá sýnt nægilega fram á, að það er enginn fótur fyrir ásökunum hv. 2. landsk. í garð okkar sjálfstæðismanna. Hv. þm. má vita það, að eins frjálst og okkur er að vera sammála jafnaðarmönnum í einstökum málum, er okkur það, að greiða atkv. með framsóknarmönnum, þegar okkur býður svo við að horfa