14.08.1931
Neðri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (1172)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Héðinn Valdimarsson:

Ég get ekki séð annað en að Sjálfstæðisfl. hafi horfið frá kröfum sínum um réttláta kjördæmaskipun, er hann vildi ekki samþ., hvaða undirstöðum starf nefndarinnar skyldi byggjast á, og svo virðist, sem hann vilji nú hafa eitthvert annað lag á þessu. Það er ekki vitað, hvað þetta samkomulag milli þessara tveggja flokka nær langt. Hv. 2. þm. Skagf. sagði, að það hefði orðið að samkomulagi milli þessara flokka, að nefndin skilaði af sér störfum fyrir næsta þing. Hvers vegna er það þá ekki tekið fram í till.? Hún segir ekki neitt um það, og úr því svo er, virðist full ástæða til að ætla, að Sjálfstæðisíhaldið sé komið í vasa Framsóknaríhaldsins í þessu máli.